Hopkins segir atburðina geta endurtekið sig

Árið 1988, sendi BBC sjónvarpsserían “That’s Life!” út þátt um Nicholas Winton, fyrrum verðbréfasala sem hjálpaði til við að bjarga 669 börnum undan Nasistum í aðdraganda Seinni heimstyrjaldarinnar og Helfararinnar. Eins og sést í þættinum þá komu þáttastjórnendur Winton á óvart með því að bjóða í þáttinn nokkrum af þeim aðilum sem hann bjargaði sem þá voru orðnir fullorðnir. Aðgerðin kallaðist Kindertransport.

Mörgum árum síðar uppgötvaði Ian Canning, Óskarverðlaunaður framleiðandi kvikmyndarinnar “The King’s Speech,” þessa klippu og fór að velta fyrir sér sögunni á bakvið hana.
„Þetta var svo æðrulaus, tilfinningaþrungin stund,“ sagði Canning í samtali við bandaríska blaðið The Los Angeles Times. „Mér fannst þetta vera líf og saga sem væri tilefni til að gera skil í kvikmynd.“

Hann og Emile Sherman sem nýlega höfðu stofnað kvikmyndafyrirtækið See-Saw Films, fóru að heimsækja Winton sem þá var 101 árs gamall árið 2010. Canning lýsir honum sem „lítillátum, göfuglyndum en einnig ótrúlega blíðum,“ en sagði að Winton hefði verið tregur til að láta gera einhverja hetju úr sér á hvíta tjaldinu. „Hann trúði því að við hefðum öll getu til að gera hið rétta á réttum tíma,“ segir Canning.

One Life (2024)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn7.6

Breski verðbréfasalinn Nicholas Winton heimsækir Tékkóslóvakíu árið 1938 til að hjálpa til við björgun barna af gyðingaættum um það leiti sem Seinni heimsstyrjöldin er að fara af stað. Björgunaraðgerðin fékk síðar nafnið Kindertransport. 669 börnum var þar bjargað undan...


Nokkrum árum síðar réðu framleiðendurnir handritshöfundana Lucinda Coxon og Nick Drake til að laga ævisögu Winton frá árinu 2014, “If It’s Not Impossible…: The Life of Sir Nicholas Winton,” að hvíta tjaldinu en söguna skrifaði dóttir hans Barbara Winton. Hún gaf samþykki fyrir kvikmyndinni One Life svo lengi sem Anthony Hopkins léki föður hennar.

Hafnaði fyrst boðinu

Þó að leikarinn hafi í upphafi hafnað boðinu, samþykkti hann það að lokum árið 2021. „Það hljómar undarlega að segja að sagan hafi snert mig persónulega þar sem ég var augljóslega ekki í Helförinni, en ég man stríðið,“ segir Hopkins sem nú er 86 ára gamall og vinnur að sinni eigin ævisögu. „Ég man skemmdirnar vegna sprengjuárásanna. Þetta snertir mitt líf og er hluti af minni meðvitund.“

One Life skiptist á milli tveggja tímalína. Hopkins leikur Winton á síðari hluta níunda áratugar síðustu aldar en Johnny Flynn leikur hann árið 1938 þegar hann fer með vini sínum til Prag í Tékklandi fyrir stríðið og sér þar þúsundir manna í flóttamannabúðum eftir að hafa flúið ofsóknir Nasista.

Þó að Winton hafi á þessum tíma verið verðbréfasali, þá gekk hann til liðs við bresku flóttamannasamtökin í Prag og bjó til áætlun um að flytja börn yfir Evrópu með lest til Englands.„Það er erfitt fyrir okkur í dag að ímynda okkur hvað gekk á á þessum tíma, en fólk vissi ekki hvaða ógnvænlegu atburðir voru í vændum,“ segir Flynn. „Þetta var lífshættuleg ógn og ekki hvað síst fyrir fólk í Bretlandi. En Nicholas, sem var af Gyðingaættum sjálfur, gat samsamað sig þessu fólki. Vegna þess hvernig manngerð hann var þá fór hann á staðinn og kom aftur til Englands og sagði: „Nei, þetta fólk sveltur og er að deyja.“

Bækur á safni

Winton vann með hópi fólks að verkefninu og ferðaðist milli London og Prag. Hann safnaði peningum, barðist fyrir málinu í innanríkisráðuneytinu til að fá vegabréfsáritanir fyrir börnin og fann fjölskyldur sem voru tilbúnar að taka þau í fóstur.

Winton skráði allt nákvæmlega hjá sér en bækur hans eru nú til sýnis í Yad Vashem safninu í Jerúsalem. Einnig má þar sjá ljósmyndir sem hann tók af börnunum og framkallaði sjálfur.

Hopkins segir í samtalinu við The Los Angeles Times að kvikmynd eins og One Life sé tækifæri fyrir áhorfendur að láta minna sig á hvað er í húfi ef við lærum ekki að gera málamiðlanir eða hjálpa til. Sjálfur hitti hann eftirlifanda úr útrýmingarbúðunum Auschwitz fyrir meira en 20 árum síðan sem sagðist heimsækja skóla til að segja börnum að Helförin gæti endurtekið sig. „Það er auðvelt að gleyma,“ segir Hopkins. „Og enginn vill hlusta á einhverja fyrirlestra. En ég vonast eftir aukinni meðvitund. Þetta gæti gerst hvenær sem er og ef við erum ekki á varðbergi erum við dauðadæmd. En ég held að mannkynið geti finni alltaf leiðir til að lifa af og bjarga sér frá hengifluginu.“