Kona gæti leikið Indiana Jones

Ready Player One leikstjórinn Steven Spielberg útilokar ekki að næsti Indiana Jones verði kona.

Í samtali við breska dagblaðið The Sun segir Óskarsverðlaunaleikstjórinn að hann sé þess nokkuð viss að Indiana Jones 5 kvikmyndin, verði sú síðasta þar sem Harrison Ford, 75 ára,  leikur fornleifafræðinginn knáa, en þessi fimmta mynd yrði þó ekki sú síðasta í seríunni. Þegar blaðamaður spyr leikstjórann út í mögulega kvenhetju, sagði Spielberg. „Við yrðum þá að breyta nafninu úr Jones yfir í Joan. Og það er bara allt í fínu lagi með það,“ sagði hann.

Spielberg hitti eiginkonu sína, Kate Capshaw á tökustað Indiana Jones and the Temple of Doom, og hann segir að hún sé einn mesti áhrifavaldur í lífi hans. „Ég hef verið heppinn að hafa orðið fyrir áhrifum frá konum, og nokkrum sem ég elska út af lífinu – móður minni og eiginkonu.“

Spielberg staðfesti í mars að tökur á Indiana Jones 5 myndu hefjast í apríl árið 2019 í Bretlandi, rétt eins og Ready Player One, sem tekin var upp í Birmingham.

Lítið er vitað um söguþráð fimmtu myndarinnar, en þó hafa borist óljósar fregnir af því að sagan gerðist á árunum sem liðið hafa frá atburðunum í Crystal Skull, og lögð  verði áhersla á efri ár Indiana Jones.