Aðalleikarar
Leikstjórn
Handrit
Þessi vandaða og einkar bráðskemmtilega kvikmynd er annað leikstjórnarverkefni Gavin O'Connor, en hann skrifaði einnig handritið ásamt höfundi sögunnar "Tumbleweeds", Angelu Shelton, og leikur einnig eitt af aðalhlutverkunum, hlutverk Jack Ranson. Myndin segir frá hinni rótlausu Mary Jo Walker sem hefur ferðast borg úr borg á undanförnum árum ásamt dóttur sinni og á einkar erfitt með að festa rætur, aðallega vegna þess að hún treystir sér ekki til að taka á þeim vandamálum sem upp koma hjá henni í karlamálum og vill frekar hlaupast á brott en leysa þau. Dóttirin, Ava, er fyrir löngu búin að fá sig fullsadda af þessu öllu saman og óskar þess heitast að móðir hennar fari nú að hætta þessum eilífa þeytingi. Í upphafi myndarinnar eru mæðgurnar komnar til San Diego þar sem Mary fær strax vinnu og byrjar nánast samdægurs með vörubílstjóra. Ava byrjar í skóla og um tíma lítur allt vel út. En hve lengi endist það í þetta sinn?Stjarna myndarinnar er án nokkurs vafa breska leikkonan Janet McTeer, sem fer á algjörum kostum í hlutverki hinnar sjálfstæðu og framsæknu móður, enda hlaut hún Golden Globe-verðlaunin í ár fyrir besta leik í aðalhlutverki kvenna og var ennfremur tilnefnd til óskarsverðlaunanna í sama flokki. Þá má heldur ekki gleyma hinni 15 ára gömlu Kimberly Brown sem fer með þriðja aðalhlutverkið, en hún hlaut í ár YAA-verðlaunin (The Young Artist Awards). Ég mæli því eindregið með að fólk skelli sér á næstu leigu og sjái "Tumbleweeds". Það er sko vel þess virði að kíkja á þessa bresku úrvalsmynd