Náðu í appið
Bönnuð innan 16 áraÍ myndinni er ljótt orðbragð

Warrior 2011

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 16. september 2011

Family is worth fighting for.

140 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 84% Critics
The Movies database einkunn 71
/100

Tommy Riordan er fyrrverandi sjóliði í her Bandaríkjanna sem snýr aftur á heimaslóðirnar í Pittsburgh eftir margra ára fjarveru. Tilefnið er að hann ætlar sér að taka þátt í MMA - keppni í blönduðum bardagalistum, þar sem metfé, fimm milljónir dollara, fæst fyrir sigur. Tommy, sem er þjáður af draugum úr fortíð sinni, byrjar á því að leita uppi... Lesa meira

Tommy Riordan er fyrrverandi sjóliði í her Bandaríkjanna sem snýr aftur á heimaslóðirnar í Pittsburgh eftir margra ára fjarveru. Tilefnið er að hann ætlar sér að taka þátt í MMA - keppni í blönduðum bardagalistum, þar sem metfé, fimm milljónir dollara, fæst fyrir sigur. Tommy, sem er þjáður af draugum úr fortíð sinni, byrjar á því að leita uppi föður sinn, Paddy, og fær hann til að taka sig í þjálfun fyrir keppnina, en Paddy hafði einmitt þjálfað hann á árum áður og gert hann að einum besta bardagamanni Bandaríkjanna. Á sama tíma ákveður bróðir Tommys, Brendan, einnig að taka þátt í keppninni. Brendan starfar sem kennari en hefur átt erfitt með að láta enda ná saman. Þess vegna lætur hann sig einnig dreyma um að ná langt í keppninni en er um leið sá eini sem telur sig eiga einhverja möguleika á móti þeim bestu, þar á meðal bróður sínum og föður sem hann hefur hvorki hitt né talað við í mörg ár. Það stefnir því allt í eitt meiriháttar uppgjör þar sem þeir bræður munu ekki bara mætast í hringnum heldur þurfa að takast á við gömul mál sem á sínum tíma sundruðu þeim og fjölskyldu þeirra .... minna

Aðalleikarar

Hörð og dramatísk
Það er dálítið langt síðan að ég hef horft á jafn persónudrifna bardagamynd sem nær samt sem áður að vera ótrúlega hörð og öflug. The Fighter reyndi, en það sem hélt henni aðalega uppi voru leikararnir. Þeir stóðu sig allir ótrúlega vel og náðu að rífa upp mynd sem hefði annars bara orðið meðalmynd. Það er spurning hvort ég þurfi að fara alla leið aftur í Fight Club til að fá mynd sem náði að hugsa svona vel um karakterana og plottið, þrátt fyrir að snúast um, tja, bardaga. Warrior nær að koma manni alveg gríðarlega á óvart. Saga MMA mynda er nefnilega mjög skrautleg. Fighting og Never Back Down, sem náðu ágætum vinsældum hérna heima voru báðar frekar óathyglisverðar og leiðinlegar. Þær voru báðar klisjulegar táningamyndir þar sem reynt var að setja hasarinn í fimmta gír og svo bara hent inn nokkrum óathyglisverðum persónum. Sem betur fer tekur Warrior ekki þau feil spor.

Fyrst og fremst snýst Warrior um persónur myndarinnar. Bardagarnir, þótt mikilvægir, eru tæknilega séð algjör aukatriði. Gavin O‘Connor tekur sér góðan tíma í að kynna fyrir þér karakterana og fyrir hlé er afskaplega lítið action. Þetta gæti leitt að því að sumum finnist hún hæg, enda skil ég það alveg. Myndin er nær 3 tímar með hléi og er það engin smá tími. En allt sem gerist í fyrri hluta myndarinnar er alveg jafn mikilvægt og seinni hlutinn, ef ekki mikilvægara. O‘Connor, sem bæði skrifaði og leikstýrði Warrior, hefði fullvel getað tekið fyrri hlutann og skorið niður allt kjötið. Það hefði hinsvegar ekki gert seinni hlutann svona ótrúlega tilfiningalegan og öflugan.

En eins og flestir vita þá geta svona persónudrifnar myndir fallið alveg gríðarlega ef leikararnir standa sig ekki nógu vel. Sem betur fer eru þeir Tom Hardy og Joel Edgerton alveg frábærir í hlutverkunum sínum. Tom Hardy skilar grófleika Tommy vel í gegnum skjáinn á meðan að Joel púllar fighter-gone- fjölskyldufaðir vel og er kemestría þeirra bræðra alveg grjóthörð. Það er greinilegt að þeir séu með óleystar deilur. En sá sem stelur senunni algjörlega er ex-alkahólista faðirinn, leikinn af Nick Colte. Nick stendur sig alveg ótrúlega vel í þessari mynd og nær að láta mann finna til með sér og vorkenna sér. Það eina sem hann vill er að reyna láta syni sína tvo fyrirgefa sér fyrir fávitan sem hann hefur verið allt sitt líf. Hann nær virkilega að láta sársaukann sem liggur á bakvið augu karaktersins skína og á hann eina tilfiningalegustu og öflugustu senu myndarinnar.

Ég get gefið kvikmyndatökunni plús fyrir það að vera bæði vel tekin upp og vel klippt. Þú átt eflaust ekki eftir að lenda í því að sjá ekki hvað er í gangi á skjánum, nema þú ákveðir að setjast fremst. Tónlistin er einnig frábær og gerir ekki annað en að ýta undir þunga andrúmslofið sem myndin setur. Það er í raun mjög erfitt að finna galla við myndina, hún nær að púlla flest allt ótrúlega vel. Bardagarnir í Spörtu keppninni eru flottir, hraðir og spennandi. Karatkerarnir eru vel skrifaðir. Sagan er dramatísk og góð og leikstjórnin er tip-top. Það er ekkert sem rífur myndina hræðilega niður og er hún fullkomið dæmi um hvernig á að taka jafn vinsæla íþrótt og MMA og búa til alvöru kvikmynd um hana.

Það er hinsvegar leiðinlegt að segja frá því að í bæði skiptin sem ég skellti mér á þessa mynd í bíó, þá var ekki fjölmennt. Myndin á skilið miklu meira umtal og margfalt fleiri heimsóknir. Þannig að ég mæli fastlega með því að þið bíðið ekki eftir því að versla þessa á DVD, farið á hana í stóra salnum og njótið eina bestu bardagamynd síðari ára.

9/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Besta klisjumynd sem ég hef séð lengi!
Skortur á frumleika er enginn dauðadómur fyrir kvikmynd en það fer mikið eftir efninu hvort slíkt dragi heildina mikið niður eða ekki. Klisjur eru aðeins alvarlegra vandamál og þegar maður sér eitthvað sem maður hefur margoft séð áður, og gert betur, þá dettur fókusinn aðeins. Það gerist ekki nema í örfáum tilfellum með gríðarlega löngu millibili að maður sjái kvikmynd sem fer eftir uppskrift og nær samt að hafa þau áhrif á mann eins og maður hafi orðið vitni af einhverju ótrúlega fersku.

Warrior rotaði næstum því úr mér vitið og sannaði fyrir mér að hún væri einmitt slík mynd. Hún er svakaleg klisja í sjálfu sér og langt frá því að vera óútreiknanleg, en hún virðist heldur ekkert að fela það. Í staðinn nýtir hún sér þá styrkleika sem hún hefur, leggur heilmikið púður í það sem liggur á borðinu og útkoman verður eitthvað það öflugasta slagsmáladrama sem ég hef séð í áraraðir. Og fyrir alla þá sem töldu The Fighter vera hágæðamynd, bíðið bara þangað til þið sjáið hvernig þessi ráðskast með ykkur tilfinningalega. Ekki ósvipaðar myndir, fyrir utan það að þessi hefur alvöru pung.

Bestu myndirnar af þessari tegund (eins og t.d. Raging Bull, Million Dollar Baby o.fl.) eru þær sem gera allt sem gerist utan slagsmálahringinn jafn áhugavert ef ekki meira svo heldur en það sem á sér stað inni í honum, og þar hittir Warrior alveg í mark. Myndin er frekar hæg og tekur sinn tíma til að hrökkva í gang, en það er viljandi gert og hiklaust nauðsynlegt til að áhorfandinn eyði smátíma með persónunum áður en mikilvægustu atburðirnir eiga sér stað í seinni hlutanum. Slagsmálaatriðin sjálf eru hörð, átakanleg og stundum óbærilega spennandi (jafnvel þau sem við vitum hvernig eiga eftir að enda). Þau myndu hins vegar engu skipta ef manni væri ekki jafn annt um þessa karaktera, og persónutengslin og sérstaklega gallar þeirra sem myndin snýst um er aðallinn í sögunni. Þolinmóða uppbygging myndarinnar gerir það sem koma skal miklu meira taugatrekkjandi um leið og maður sér hvert sagan stefnir, og það er ansi fljótt.

Leikstjórinn hittir á allar réttu nóturnar þegar kemur að því að láta dramað virka. Síðan er handritið býsna höggþétt og leikurinn ekkert annað en óaðfinnanlegur. Ég hef haft gríðarlegt dálæti á Tom Hardy alveg síðan ég sá hann stela senunni í hinni annars ómerkilegu Star Trek: Nemesis (þar var hann grannur og sköllóttur). Eftir að hafa fylgst með leiksigur hans í Bronson, töffaratöktunum hans í Inception og núna vélsöginni sem hann leikur í Warrior er ég öruggur um að þetta sé einn sá metnaðarfyllsti og aðdáunarverðasti sem hægt er að finna í dag. Hardy og mótileikari hans, Joel Edgerton, eru hér um bil fæddir í þessi hlutverk. Sögur um lítilmagna (þ.e. svokallaðir underdogs) geta oft verið áhrifaríkar, og hérna höfum við tvo. Við finnum til með báðum aðilum á ólíkan máta. Baksagan hjá Hardy er óljósari en hjá Edgerton í upphafi sögunnar en hvernig leiðir þeirra liggja saman býr til einhvern albesta endasprett sem ég hef séð í bíó á öllu árinu. Fjölskyldudeilurnar í The Fighter, eins sterkar og þær voru, eiga ekkert í þessa mynd.

En ef Hardy og Edgerton eru hér um bil fullkomnir, þá verð ég að segja að Nick Nolte er aðeins betri. Honum tekst að breyta ótrúlega gölluðum einstaklingi í gríðarlega sympatíska persónu, og nokkrar senurnar sem hann fær eru líklegar til þess að græta aldraða feður úr öllum áttum og jafnvel fá hin hörðustu vöðvatröll til að sjúga upp í nefið. Ég get heldur ekki sett út á Jennifer Morrison (þessi fallega gella úr House sem lítur alltaf út fyrir að vera reið en er það ekki) eða nokkurn annan sem fer með aukahlutverk í myndinni.

Enn og aftur, Warrior er öskrandi klisja með mikið af kunnuglegum töktum og ef menn ætla að hakka hana í sig með því hugarfari þá er það mjög auðvelt. Ég hika þó ekki við að segja að þú sért gerður úr steini ef þessi mynd hvorki hreyfir við þér eða heldur þér pikkföstum þegar bæði andlegu og líkamlegu átökin byrja. Kvikmynd þarf ekki að brjóta blað í sögu kvikmynda til að fá þig til að segja: "Kræst, hvað þetta var góð mynd!" Hún þarf auðvitað að hafa eitthvað almennilegt í boði í staðinn. Warrior hefur helling, en hún er umfram allt nautsterk og hélt ótruflaðri athygli minni allan tímann.

9/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

03.08.2023

12 bestu hákarlamyndir sögunnar

Allt síðan Jaws skráði sig á spjöld sögunnar sem fyrsti sumarstórsmellurinn í bíó árið 1975 hafa hákarlamyndir átt sérstakan stað í huga bíógesta og ástæðan er einföld: Hvort sem sögð er saga af trylltum man...

22.10.2021

Ekki alltaf dans á rósum

Tom Hardy er án efa einn af þekktustu leikurum okkar tíma. Hann hefur leikið í mörgum af frægustu kvikmyndum 21. aldarinnar og er þekktur fyrir fjölbreytta frammistöðu. Leiðin að þessum gríðarlega farsæla ferli var þó...

04.05.2021

Þessar framhaldsmyndir eru betri en þær fyrri

Kvikmyndalistformið hefur nú verið til í á annað hundrað ár og enn virðist fólk vera þeirrar skoðunar að framúrskarandi framhaldsmyndir séu fágætar. Góð framhaldsmynd er oftast nær verk sem byggir ofan á þa...

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn