Aðalleikarar
Leikstjórn
Handrit
Myndin segir frá kommúnunni Tillsammans og lífi fólksins sem þar býr. Í kommúnunni gengur ýmislegt á, eins og við má búast þegar fólk býr svo margt saman undir einu litlu þaki.
Karakterarnir lifa fábrotnu hippa-lífi, og myndin fjallar um átök og vandamál sem upp koma hjá þeim. Margir þeirra eru óvissir um kynhneigð sína, og kynferðisleg tilraunastarfsemi er stór hluti af myndinni. Þetta sáum við líka í annarri mynd eftir leikstjórann Lukas Moodysson, Fucking Åmål, og virðist vera honum hugleikið efni.
Myndin átti sína spretti, en of mikið fannst mér vera um dauða kafla, og held ég að myndin hefði mátt missa nokkrar mínútur í lengd. Hún var samt áreynslulaus, ekkert að rembast neitt, og hafði frekar afslappað yfirbragð.
Um Tillsammans er svo sem ekki mikið hægt að segja, þetta er lítil og fábrotin mynd um lítið og fábrotið samfélag, og skilar sínu bara nokkuð vel að mér finnst. Einföld og fín evrópuræma.
Þessi mynd er hrein snilld. Andrúmsloftið og húmorinn sem leikstjórinn nær að skapa með frábærum leikurum er með því betra sem sést hefur á hvíta tjaldinu. Það er frábært að geta enn farið í kvikmyndahús til að njóta sagna af fólki án þess að slepja Hollývúdd leki af hverju andliti. Þessi mynd er enn ein rós í hnappagat frábærra norrænna leikstjóra sem eru að skjóta amerískum starfsbræðrum sínum ref fyrir rass í hverri myndinni á fætur annarri.
Gaman gaman. Aftur góð mynd frá leikstjóra Fucking Amal. Ég held að brosið hafi ekki farið af mér allan tímann sem ég sat í bíósalnum, og líklega ekki fyrr en ég fór að sofa. Hér tekst honum ótrúlega vel að skapa litla og skemmtilega veröld sem maður fær að skoða nánar og bragða lítillega á. Í stuttu máli fjallar myndin um fólk sem býr í kommúnu og manneskjurnar í þeirra lífi, bæði innan sem utan kommúnunar og áhrifin sem þær hafa á líf þeirra þar. Leikararnir gefa persónunum mjög mikið líf og sagan er virkilega skemmtileg og persónuleg og tvinnst saman á mjög skemmtilegan hátt. Jafnmikið og Dogma-myndir eins og Festen og Idioterne gefa manni annað sjónarhorn á listformið sjálft er leikstjóri Tillsammans með sýnikennslu í því hvernig skapa á tengsl milli manneskja á tjaldinu svo maður lifi sig almennilega inn í söguna og andi djúpt af innri gleði. Gaman gaman.
Hér er á ferðinni sænsk mynd frá sömu aðilum og sendu frá sér Fucking Åmal fyrir ekki svo löngu síðan. Hún gerist 1975 og fjallar um alveg hreint ótrúlega hallærislegt fólk sem býr saman á kommúnu. Það er í raun ekki hægt að tala um neinn söguþráð þar sem myndin fjallar bara um líf þessara persóna og virðist lengst af frekar stefnulaus. Aftur á móti falla öll brotin saman í endann þar sem boðskapur myndarinar er undirstrikaður, en honum er líst á nokkuð góðan hátt í eftirfarandi setningu: Það er betra að borða hafragraut saman en svínakótilettur einn. Þrátt fyrir að myndin sé vel heppnuð að þessu leiti verð ég að segja að mér leiddist verulegu á köflum yfir henni. Þeir sem muna eftir hippaárunum eiga eflaust eftir að fá meira út úr henni, en fyrir okkur hin er þetta ekki það sama. Þeir sem eru mikið fyrir norrænar myndir ættu einnig að hafa gaman af, en aðrir ættu að hugsa sig tvisvar um.
Um myndina
Leikstjórn
Handrit
Framleiðandi
IFC Films
Aldur USA:
R
Frumsýnd á Íslandi:
29. júní 2001