Náðu í appið
Bönnuð innan 16 áraMyndin vísar til eða sýnir notkun vímuefnaÍ myndinni er ljótt orðbragð

Assault on Precinct 13 2005

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 4. febrúar 2005

Unite and fight.

109 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 60% Critics
The Movies database einkunn 54
/100

Lögregluvarðstjóri á lögreglustöð sem er um það bil að loka fyrir fullt og allt, þarf að fá lögreglumenn og fanga til að vinna saman, gegn múgi sem vill drepa mafíósann Marion Bishop.

Aðalleikarar


Þeir sem kannast við spennumyndir, ættu að kannast við gömlu Assault on Precinct 13. Þessi 1976 klassík vakti fyrst athygli á Cannes Filmfestival og kom leikstjóranum John Carpenter á kortið sem leikstjóra, og fylgdi hann þeim vinsældum með því að gera eina vinsælustu hrollvekju allra tíma, Halloween. Endurgerðin af Assault kom út fyrir ári síðan og var það í höndum Ethan Hawke og Laurence Fishburne að halda uppi fjörinu. Þeir sem hafa ekki séð endurgerðina en kannast við gömlu myndina, þá er sagan nokkuð svipað uppbyggð. Kannski með smá breytingum. Hún er soldið hæg að byrja með, en þegar atburðarrásin byrjar þá er maður alveg rígfastur yfir myndinni, og er það eins og að vera í góðri adrenalínvímu. Þannig leið mér allavega þegar ég horfði á hana. Leikstjórn Jean-Francois Richet er góð, handrit og persónusköpun(þó það séu gallar eins og einhver sagði) fannst mér fínt, hraðinn í myndinni er rosalegur og svo til að fylla upp í það, eru leikararnir með fínar frammistöður. Laurence Fishburne, sem er hvað þekktastur sem Morpheus í Matrix, sýnir fínan leik og alltaf traustur. Ethan Hawke er einnig mjög góður en hefur sýnt meir sannfærandi frammistöðu en hér(Training Day, anyone?). En Gabriel Byrne er alltaf góður og er hann svalur í hlutverki leiðtogans sem ræðst á lögreglustöðina. Assault on Precinct 13 er fín endurgerð og með þeim hröðustu sem ég hef séð. Finnst hún eiga alveg skilið 3 og hálfa stjörnu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Söguþráður: Jake Roenick er varðstjóri í einhverri útkjálka lögreglustöð í Detroit sem á að fara rífa. Búið er að flytja flest allt lið, tól og tæki yfir í nýju stöðina, og nú á gamlárskvöld stendur hann, ásamt ritaranum og gömlum lögreglumanni, seinustu vaktina. Vegna óveðurs er stórglæpamaðurinn Marion Bishop sem verið var að flytja settur í varðhald hjá þeim yfir nóttina. En félagi Bishops, Marcus, sem reyndar er lögreglumaður vill hann feigan svo Bishop nái ekki að ljóstra upp glæpaferli þeirra félaga. Reyna því Marcus og félagar að ráðast inn í lögreglustöðina, en mæta þar meira mótspyrnu en þeir bjuggust við.


Gagnrýni: Þrátt fyrir holóttan söguþráð, og að því er virðist, týpískan amerískan hasarmynda söguþráð - þá var ég virkilega ánægður með þessa mynd. Kannski bjóst ég ekki við miklu, kannski var ég bara í stuði til að horfa á svona mynd, eða kannski var hún bara lumskt góð! Málið er að þrátt fyrir að köflum sé hún að sækja efnivið í aðrar spennumyndir (til að mynda alveg hrikaleg eftirlíking þegar náungi er drepinn með grýlukerti - alveg nákvæmlega eins og í Die Hard 2), og að persónurnar séu svolítið by the book, þá er hún samt öðrvísi byggð upp. Myndatakan er alveg ótrúleg, og bjargar myndinni frá því að vera eins og sett upp á sviði (því öll gerist hún jú meira og minna á þessari lögreglustöð). Og framvindan er ekki öll eins og maður bjóst við - þar sem það er visst miskunnarleysi í henni - sem oft má ekki í bandarískum myndum. Það má alveg bíða eftir henni á DVD, þar sem bíóið gerir svo sem ekkert sérstakt fyrir hana - en afskrifið hana alls ekki sem einhverja heilalausa spennumynd.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Kvikmyndin Assault on precint 13 sem John Carpenter gerði árið 1976 er löngu orðin klassík og sömuleiðis ein af mínum uppáhaldsmyndum. Þegar ég fór síðan að sjá endurgerðina vissi ég ekki við hverju ég átti að búast en þessi endurgerð reyndist síðan vera, þrátt fyrir að vera góð, síðri en undanfari sinn. Reyndar finnst mér samt örlítið ósanngjarnt að bera þessar tvær myndir saman því að það er fátt líkt með þeim fyrir utan titillinn náttúrulega og söguþráðinn í stórum dráttum sem lýsir í sem stystu máli árás glæpagengis á yfirgefna lögreglustöð og lögreglufólkið og smákrimmarnir sem öll voru svo óheppin að vera þar inni(talandi um að vera á röngum stað á röngum tíma)snúa bökum saman til að halda lífi. Fyrri myndin verkar bara örlítið betur á mig en þessi er samt fín og sem hasarmynd nokkurnveginn nógu fullnægjandi. Svo er nú ekki hægt annað en að gefa mynd með Maria Bello(ég er dálítið lúmskt hrifinn af henni) og er endurgerð á John Carpenter mynd góða einkunn.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skotheld endurgerð
Assault on Precinct 13 er mynd sem maður þarf bara að hafa gaman af, þrátt fyrir götóttan söguþráð eða þunnar persónur. Myndin er í stuttu máli bara nett afþreying, og ef maður kemst í þessa spennuvímu meðan henni stendur þarf alls ekki á öðru að halda.

Hún er hröð og keyrslan þétt. Svona u.þ.b. hálftíma inn í myndina skiptir hún yfir í overdrive-gírinn og hægir mjög sjaldan á sér. Um er að ræða ekta testósterónbíó sem inniheldur bæði dúndurskemmtilega skotbardaga og hressilegan húmor á milli sena. Líka er sérstök ástæða til að hrósa kvikmyndatökunni, en þrátt fyrir óbærilegan hristing einstaka sinnum nær hún að standa fyrir sínu ásamt flottum stíl.

Leikararnir standa sig bærilega. Ethan Hawke er reyndar ekki að gera nýja hluti hérna - reyndar minnir persóna hans örlítið á aðeins meira Die Hard-útgáfu af þeirri sem hann lék í Training Day - en hann er fínn þrátt fyrir það. Laurence Fishburne hefur heldur ekki verið svona svalur síðan hann steig fyrst fram í Matrix. John Leguizamo og Ja Rule eru síðan viðstaddir til að sjá um létta brandara, en persónulega finnst mér myndin hefði vel getað bjargað sér án hins síðarnefnda og fannst mér taktar hans oft á tíðum óþolandi.

Handrit myndarinnar fær auðvitað engan plús fyrir frumleika (þetta er nú einu sinni endurgerð) og maður þarf ekki háa greind til að skynja hversu þrælgötóttur söguþráðurinn er. Sem dæmi má kalla það frekar langsótt hversu erfitt það reyndist fyrir lögreglusveitina að ráðast inn á stöðina með allar þessar skotgræjur meðan öryggisgæslan var í lágmarki. Þetta eru auðvitað hlutir sem maður á síst að spá út í, enda er meginkrafan sú að skilja heilasellurnar eftir heima, og ef tekið yrði mark á trúverðugleika í myndinni væri stemmningin eflaust horfin.

Fyrir það sem hún er, þá mæli ég með Assault on Precinct 13. Þegar maður horfir á hana fer maður að ímynda sér hversu ferlega langt það var síðan maður seinast sá svona alvöru spennumynd með sífelldum kúluhríðum, brútal ofbeldi, svölu fólki og dánartali í hámarki. Skotheld formúla. Meira, takk!!

7/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

06.10.2017

Halloween í fjóra áratugi

Hin sígilda „Halloween“ (1978) eftir John Carpenter nálgast óðfluga stórafmæli og staðfest er að ný mynd er  væntanleg til að fagna þeim merkilega áfanga. Sú mun einfaldlega bera titilinn „Halloween“ (2018) og...

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn