Aðalleikarar
Leikstjórn
Handrit
Með þessari mynd fór álit mitt á tölvugerðum myndum frá Disney að vera nokkuð öruggt, þar sem það sést að Meet the Robinsons var ekki hundaheppni hjá þeim. Disney á ennþá eftir að koma með svona teiknimynd sem hægt er að bera saman við bestu teiknimyndir Pixar, en ég mundi samt segja að þeir væru nálægt gæðum DreamWorks. Á meðan DreamWorks hafa gert nokkrar betri myndir (How to Train Your Dragon, Shrek og Shrek 2), þá hafa þeir samt gert margar slakar myndir, og hefur Disney einungis gert það einu sinni (fyrir utan að hún var verri en slök).
Sagan í sjálfu sér kemur ekki með mikið nýtt, en skemmtanagildið er verulega gott og sá til þess að nær ekkert atriði var og langt eða leiðinlegt.
Aðalkarakterarnir tveir, Bolt og Mittens, fá gott hrós fyrir að vera vel skrifaðir karakterar. Þróun Bolt komst vel skila (þó mér fannst hún vera smávegis lík þróun Buzz Lightyear í Toy Story: hann heldur að hann sé rosalega mikilvæg hetja en fer að uppgötva að kannski er mikilvægara að vera til staðar fyrir eiganda sinn) og mér líkaði vel að sambandið hans við Mittens var frekar raunhæflega gert. Manni líður samt smávegis illa fyrir John Travolta, en ég hef ekki séð betri mynd með honum á þessari öld, og eina sem hann gerir í þessari mynd er að ljá rödd sína (svipað með Mike Myers, hefur ekki gert neitt gott eftir Shrek 2, fyrir utan Inglorious Basterds).
En senuþjófur myndarinnar er algjörlega hamsturinn Rhino, áreiðanlega besta comic-relief þessa áratugar með Kronk úr Emperor's New Groove. Fanboy persónuleiki hans er frábær og það koma mörg eftirminnileg atriði með honum.
Eins og ég kom með áðan þá er ekki mikill frumleiki í myndinni, en áreiðanlega það frumlegasta við myndina er að það er ekkert illmenni í henni. Af því sem ég man eftir þá eru einu aðrar myndirnar sem hafa ekki illmenni (þær hafa antagonist en það er ekki það sama) í einhverum hluta myndarinnar eru Dumbo, Lady and the Tramp og nokkrar aðrar.
Aðalgalli myndarinnar eru manneskjunnar. Engin af þeim er eftirminnileg og gera nær ekkert við söguna, nema kannski Penny, en mér fannst röddin hennar Miley Cyrus vera pirrandi. Og það pirraði mig ennþá meira að hún fékk nafnið sitt á auglýsingar myndarinnar með John Travolta í staðinn fyrir Susie Essman. Ég hélt alltaf að hún talaði fyrir köttin. Sem betur fer gerði hún það ekki. Það var samt gaman að sjá Malcolm McDowell í smávegis cameo.
Myndin er samt með rosalega góða orku og smávegis hjarta á milli. Jafnvel þótt hún bætti álit mitt á tölvuteiknuðum Disney-myndum þá finnst mér samt Meet The Robinsons vera betri. En munurinn er ekki rosalegur.
7/10
Nýjasta afurð Walt Disney fyrirtækisins, Bolt (ísl: Bolti), færir okkur inn í heim gæludýrana. Myndin fjallar um ofurhundinn Bolt (talsettur af John travolta), sem hleypur um á hraða hljóðsins, skýtur ofurheitum geislum úr augunum og geltir það hátt að jörðin skelfur. En þessir ofurkraftar hans virka þó einungis þegar ljóskastararnir eru kveiktir, aukaleikararnir eru komnir á sinn stað og kvikmyndatökuvélin er byrjuð að rúlla, því hann Bolt er í rauninni dýrastjarna á silfurtjaldinu.
Eftir að sjá Penny, (talsett af Miley Cyrus) eiganda sinn og meðleikara verða rænt af illmennum hefst ferð hans til að frelsa hana úr klóm þeirra, en gerir sér fljótt grein fyrir að utan upptökuversins er hann kraftalaus og aðeins ósköp venjulegur hundur.
Myndin er afar vel talsett en auk Travolta og Cyrus eru það m.a. stórleikarinn Malcolm McDowell og fræðimaðurinn James Lipton sem ljá þessari mynd raddir sínar. Hún fylgir afar klassískri formúlu, þ.e. sagan um ferðalag hetjunnar frá stað A yfir á stað B og öll þau ævintýri og persónur sem hún hittir á leiðinni. Það er spenna, kærleiki og mikið gaman sem einkennir þessa mynd og er kjarngóð skemmtun fyrir alla fjölskylduna.
Myndin er sýnd í þrívídd og er tilheyrandi gleraugum úthlutað til bíógesta við innganginn, en þessi þrívídd fer satt best að segja í hundana því þetta er ekki mynd sem þarf á þrívídd að halda. Fyrir utan tvö til þrjú atriði þar sem hlutir virðast vera á leið í andlitið á þér þá er ekki mikið um senur þar sem þrívíddin fær að njóta sín.
Myndin kennir okkur að maður þarf enga ofurkrafta til þess að vera hetja og láta gott af sér leiða, og er sá boðskapur eitthvað sem við getum öll fylgt eftir.
Stórgóð mynd sem vert er að sjá í bíó með allri fjölskyldunni og heimilishundinum.
Þegar ég heyrði kvikmyndina Bolt nefnda í fyrsta skipti. Þá hélt ég að hún væri aðeins verri en svona semi. Svo sá ég plakatið og þá leist mér aðeins betur á hana og síðan þegar ég sá trailerinn, þá langaði mig alveg virkilega mikið að sjá þessa mynd. Einnig leist mér ekkert kannski svaðalega vel á leikarana í ensku útgáfunni en þegar ég sá að þetta var teiknimynd gátu þeir lofað góðu.
Hér er á ferðinni ótrúlega skemmtileg mynd með skemmtilegum söguþráð í skemmtilegri þrívídd svo niðurstaðan í þessu er bara skemmtun.
Eins og gjarnan gerist í kvikmyndum koma svokallaðar rómantískarsenur þær koma þarna fyrir... reyndar væri hægt að segja að þetta væri meira svona dramantískt á köflum svo að það leiddist mér.
Niðurstaðan á kvikmyndinni er 9/10 (ég veit að það er hátt, en samt mér fannst hún góð).
Það sem Bolt skortir í frumleika bætir hún upp með skemmtanagildi. Myndin fjallar um ofurhundinn Bolt (John Travolta), eða fremur hund sem heldur að hann sé ofurhetja. Hann er í raun vinsæl sjónvarpsstjarna sem er látin halda að allur hasarinn sem gerist í kringum sig sé ekta. En til að bæta lækkandi áhorf endar nýjasti þátturinn á hörðum cliffhanger, sem gerir Bolt brjálaðan og sleppur hann af settinu til að "bjarga" eiganda sínum, Penny (Miley Cyrus). Algjörlega ómeðvitaður um heiminn út fyrir sviðsmyndirnar lendir kappinn í alls konar ævintýrum í leit að Penny.
Það má eiginlega kalla þetta blöndu af Homeward Bound og The Truman Show. Pælið aðeins í því.
Eins og ég sagði, þá er efniviðurinn ekkert sérlega nýr, og ef það væri ekki fyrir ofvirka Michael Bay-lega hasarinn (í góðu gríni, að sjálfsögðu), þá væri þetta eins týpískt og Disney ævintýri gerast. Myndin byrjar með látum, en breytist einkum fljótt í dæmigerða vegamynd. Það sem að bjargar miðjumoðs efnisinnihaldinu er aftur á móti góður húmor og óneitanlega sjarmerandi lokakafli. Kannski hafa þessir kostir eitthvað með það að gera að John Lasseter hafi verið einn af framleiðendum myndarinnar, en hann er yfirleitt meðvitaður um hvað virkar best þegar kemur að hugljúfum þroskasögum.
Raddirnar eru einnig allar fínar. John Travolta er virkilega sprækur og skemmtilegur sem Bolt. Rödd Susie Essman (úr Curb Your Enthusiasm) smellpassar fyrir köttinn Mittens og Miley Cyrus tekst að fela sviðsljósaregóið sitt sem Penny og túlkar þá persónu bara helvíti vel. Ég get samt lofað að hver sem sér þessa mynd (á ensku þá væntanlega) mun segja að Mark Walton hafi tvímælalaust staðið upp úr sem hamsturinn (og úber-nördinn) Rhino. Ímyndið ykkur lítinn Harry Knowles í brenglaðri sykurvímu og þá fattið þið hvernig týpa hann er.
Útlit myndarinnar er mjög flott. Persónur eru hæfilega ýktar í útliti, sem ég fíla! Finnst alveg óþarfi að tölvuteiknimyndir stefni oftast á þetta "photo-real" lúkk. Myndin er einnig nett fallega litrík.
Bolt fellur vissulega í skuggann á slíkum gersemum eins og Kung Fu Panda og Wall-E, og hefðu þær ekki komið væri hér örugglega um sterkustu teiknimynd ársins að ræða. Myndin er ekki frábær og einhvern veginn efa ég að hún eigi eftir að eldast eins vel og t.d. bestu Pixar myndir. Kannski á hún eftir að enda í sömu hrúgu af vanmetnum fjölskyldumyndum eins og m.a. Meet the Robinsons, sem alltof fáir sáu.
Annars, þá stenst myndin þær væntingar sem hægt er að gera til hennar, og það er í sjálfu sér eitt besta hrósið sem ég get gefið henni. Hún hallast kannski meira að krökkum heldur en eldri hópum, en boðskapurinn er einfaldur og jákvæður og afþreyingargildið er alfarið í góðu.
7/10
Um myndina
Leikstjórn
Handrit
Vefsíða:
Aldur USA:
PG
Frumsýnd á Íslandi:
26. desember 2008