Náðu í appið
Bönnuð innan 7 áraMyndin getur valdið ótta hjá eða er ógnvekjandi fyrir ung börn

Megamind 2010

(Master Mind, Oobermind)

Frumsýnd: 17. desember 2010

It's Big for a Reason

95 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 73% Critics
The Movies database einkunn 63
/100

Megamind er yfirgengilega gáfuð geimvera sem var send í burtu frá heimaplánetu sinni þegar mikil hætta steðjaði að þar. Hann var þó ekki sá eini sem var sendur burt og endaði á jörðinni, því Metro Man lenti á sömu braut og hann. Metro Man verður fljótt mikil stjarna og elskuð ofurhetja á Jörðinni á meðan Megamind lendir utangarðs... Hinn bitri Megamind... Lesa meira

Megamind er yfirgengilega gáfuð geimvera sem var send í burtu frá heimaplánetu sinni þegar mikil hætta steðjaði að þar. Hann var þó ekki sá eini sem var sendur burt og endaði á jörðinni, því Metro Man lenti á sömu braut og hann. Metro Man verður fljótt mikil stjarna og elskuð ofurhetja á Jörðinni á meðan Megamind lendir utangarðs... Hinn bitri Megamind verður því illmenni en hver einasta tilraun hans til stórkostlegra illvirkja misheppnast þar sem Metro Man kemur ávallt til bjargar. Það breytist einn daginn þegar Megamind sigrar Metro Man óvænt í eitt skipti fyrir öll. Það sem þá gerist er að í stað sigurvímu finnst Megamind allur tilgangur í lífinu horfinn, og býr því til nýja ofurhetju úr einmana myndatökumanninum Hal. Hins vegar ákveður Hal upp á eigin spýtur að í stað þess að verða ofurhetja ætli hann að nota krafta sína gegn mannkyninu, og þá eru góð ráð dýr fyrir ofurillmennið Megamind.... minna

Aðalleikarar

Misfyndin klisja
Megamind er eins og Despicable Me, bara lélegri útgáfan með öðrum persónum. Hún er þó ekki fullslæm og það er vissulega einhver húmor í henni en ekki nóg. Hefði myndin verið fyndnari hefði hún auðveldlega fengið hærri álit hjá mér. Pixar-myndir eru oftast frábærar, fyndnar og innihaldsríkar en DreamWorks-myndirnar reiða sig oftast á húmornum sem getur verið frábær. Þessi mynd er með frekar fyndnar línur og atriði og seinni helmingur var mun betri og fyndnari þótt að sá hluti hafi verið frekar klisjukenndur.

Það stóðu sig flestir mjög vel og Will Ferrell, sem er enn í háu áliti hjá mér þrátt fyrir nokkrar misheppnaðar myndir, stendur sig ágætlega sem Megamind og er alls ekki pirrandi og tók ekki Will Ferrell-inn á þetta (hann öskraði ekki random hluti allan tímann). Tina Fey, Jonah Hill og Brad Pitt eru líka mjög fín en David Cross er snillingur. Sérstaklega þar sem ég sá bara fyrir mér Tobias Fünke þegar persóna hans var í myndinni.

Myndin var almennt fín, hefði mátt verið frumlegri og með fleiri bröndurum. 6/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Séð þetta áður, og gert betur
Enn og aftur fáum við að sjá hvers vegna Pixar-teymið er það besta í því sem það gerir. Kannski hefur það eitthvað að segja að aðstandendur þar gera oftast líka bara eina mynd á ári, og leggja hellingsvinnu í þá einu mynd. Dreamworks sendir venjulega frá sér tvær teiknimyndir árlega (þrjár, að vísu, nú í ár), og þó svo að kannski ein af þessum tveimur reynist vera góð, þá er ansi langt á milli mynda sem ná hæðum Pixar-myndanna. How to Train Your Dragon var seinasta mynd Dreamworks sem var frábær, þar áður var það líklegast Kung Fu Panda, og á undan því... Guð, ég man það ekki. Megamind minnir dálítið á Monsters vs. Aliens í tón, og líka að því leyti að hún lofar góðu en skilar miklu minna en maður býst við. En Monsters hélt samt dampi í húmor, sem Megamind gerir ekki.

Þú veist að þú hefur gert eitthvað mikið vitlaust þegar þú, sem leikstjóri, ert að gera léttgeggjaða teiknimynd með svona fínu liði af leikurum (s.s. Will Ferrell, David Cross, Brad Pitt, Jonah Hill og Tina Fey) án þess að hún hitti reglulega í mark í húmor. Af einhverjum ástæðum fékk þessi mynd mig aldrei til að hlæja af viti. Brosa jú, kannski nokkur fliss en aldrei neitt meira og ég tek það sterklega fram að ég fór hvorki á myndina í vondu skapi né með of miklar væntingar. Will Ferrell er samt stór partur af þessu vandamáli. Við vitum öll að hann getur verið meinfyndinn, en hann dettur sömuleiðis oft í þá gryfju að halda að hann geti borið upp heilu senurnar bara með því að tauta einhverja steypu og vera með fíflagang. Það er eins og hann geri sjálfkrafa ráð fyrir því að röddin hans sé svo fyndin að við hlæjum alveg sama hvaða spuna hann hendir framan í okkur. Sorrý Will. Listinn yfir þær myndir þar sem hann þykir pirrandi er lengri en maður heldur. Ég held að ég geti rétt svo talið upp þær myndir með annarri hendi sem hann var virkilega skemmtilegur í. Cameo og aukahlutverk ekki tekin með.

Í Megamind er Ferrell langt frá því að vera pirrandi, en hann er heldur ekkert fyndinn eða eftirminnilegur. Sama setning gildir um alla hina leikaranna. Innihald myndarinnar er heldur ekki eins ferskt og hún heldur, og í rauninni hugsaði ég allan tímann að ég væri að horfa á einhvers konar blöndu af The Incredibles og Despicable Me. Ég áttaði mig fljótlega á því að ég hefði miklu frekar viljað horfa á þær aftur heldur en þessa. Ég geri mér að sjálfsögðu grein fyrir því að Megamind er ekki að stela neinu frá Despicable Me þar sem þær komu út með alltof stuttu millibili, en bara það hversu mikið hún minnir mig á þá mynd er merki um þennan mikilfenglega ófrumleika sem er hér til staðar. Ég skora á ykkur samt til að segja mér að illmennin í þessari mynd og Incredibles séu ekki grunsamlega svipuð.

Þetta eru engar nýjar fréttir en Dreamworks-teiknimyndir hafa alltaf einblínt meira á brandara, frægar raddir og random tónlistarnúmer í lokin heldur en persónusköpun og hlýju, og þess vegna eru þær alltaf í öðru sæti (Dragon er sennilega eina myndin frá fyrirtækinu sem líktist Pixar-mynd). Skemmtanagildið í Megamind er alls ekki dautt en áhugi minn fyrir efninu var ferlega takmarkaður, aðallega af sökum þess að brandararnir misstu oftast marks. Útlitið var annars vegar mjög gott og hasarsenurnar lífguðu mikið upp á glápið. Það er svosem nóg til að ég fari ekki að kalla þetta einhverja tímasóun en líkur á meðmælum eru nánast engar.

5/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn