Aðalleikarar
Leikstjórn
Handrit
Ég þoli ekki hafnabolta, og hef aldrei gert. Þetta er langdregin, hallærisleg íþrótt sem er mun skemmtilegri þegar hún heitir kýló og maður spilaði hana úti í götu með vinum sínum. En þessi mynd gerir hana alls ekki svo slæma. Þetta er sennilega besta hafnaboltamynd sem ég hef séð (og tel ég þá með væmnina Field of Dreams, sem Costner eyðileggur eins og flest annað). A League Of Their Own er þessi týpíska saga af lítilmagnanum sem ber sigur úr býtum í lokin, en hún gerir það mjög skemmtilega. Sagan er sú að þegar seinni heimsstyrjöldin er í fullum gangi vantar karlmenn til að halda uppi þjóðaríþrótt Kananna, hafnabolta. Lausnin er einsföld: Snjall viðskiptamaður ræður stelpur til starfans. Myndin segir frá liðinu Rockford Peaches, sem Tom Hanks stjórnar kófdrukkinn og inniheldur leikmenn á borð við Geenu Davis, Madonnu, Rosie O'Donnell, Lori Petty og hina furðulegu Megan Cavanagh. Í aukahlutverkum eru Garry gamli Marshall sem tyggjóauðjöfurinn og David Strathairn. Og ekki má gleyma Jon Lovitz, sem leikur fýlda hausaveiðarann. Fyrst hata allir stelpuboltann, svo elska allir stelpuboltann, þær kljást við erkióvinina í Racine Belles, og allir standa eftir glaðir með tárin í augunum. Auðvitað, þetta er nú einu sinni amerísk bíómynd. En ég er búinn að sjá þessa mynd aftur og aftur og nýt hennar alltaf jafn mikið. Áfram stelpur!