Kvikmyndasíðan Heaven of Horror gefur hrollvekjunni Smile toppeinkunn í nýlegri umfjöllun. Myndin kom í bíó á Íslandi um helgina.
Segir gagnrýnandi síðunnar að kvikmyndagestir eigi gott í vændum. Hrollurinn hríslist um áhorfendur, hljóðhönnunin sé frábær og myndheimurinn sömuleiðis. „Þetta er sígild hryllingsmynd þar sem áhersla er lögð á bæði söguframvindu og afþreyingu,“ segir í dóminum.
Leikstjóri og handritshöfundur kvikmyndarinnar er Parker Finn, en þetta er frumraun hans á báðum sviðum.
Gagnrýnandinn viðurkennir að hann hafi ekki öskrað af hræðslu en hann hafi nokkrum sinnum stokkið upp í sæti sínu. „Ég komst einnig nálægt því að meiða bæði sjálfan mig og félaga minn þegar fyrstu bregðuatriðin komu. Ég meira að segja vissi að þau væru á leiðinni en samt hrökk ég við því tímasetningin var svo yndislega miskunnarlaus,“ segir gagnrýnandinn sem sagðist hafa átt erfitt með að ná andanum lengi á eftir.
Eins og The Ring og It Follows
Blaðamaðurinn grípur til líkinga og segir að söguþráðurinn fjalli um bölvun líkt og í kvikmyndinni sígildu The Ring. „En stóri munurinn er að eina persónan sem er fordæmd getur séð hvað er að elta hana – líkt og í It Follows.“
Þá segir hann að ekki sé um frekari líkindi með myndunum þremur að ræða. „En þær eiga það sameiginlegt að hrollurinn er áhrifamikill.“
Gagnrýnandinn líkir myndinni einnig við myndir James Wan ( The Conjuring, Saw ofl.) einkum vegna kvikmyndatökunnar. „Við erum dregin inn í heim þar sem myndavélin hreyfist um rýmið og stundum hreyfist hún upp og niður eða á hvolf.“
Hræðilegar tennur og dauðdagar
Gagnrýnandi bandaríska dagblaðsins The New York Times hreifst einnig af myndinni og mælir með henni til áhorfs. Hann gefur henni R í einkunn fyrir hræðilegar og ógnvekjandi tennur og skelfilega dauðdaga.