Venom – Tom Hardy slakur á fyrstu ljósmynd

Fyrsta ljósmyndin úr ofurhetjukvikmynd sem margir bíða spenntir eftir, Venom, hefur verið birt á nýstofnuðum Twitter reikningi myndarinnar undir yfirskriftinni Day 1 eða Dagur eitt.

Tom Hardy, sem fer með titilhlutverkið, hlutverk erkiþorparans Venom er varla sjáanlegur á myndinni að heitið geti, og í raun er fátt á henni að græða. Eina sem má segja um myndina er að þar er staðfest opinberlega að Hardy sé hluti af verkefninu.

Vonandi munu aðstandendur verða duglegir hér eftir að setja inn nýtt og vonandi meira spennandi myndefni af tökustað myndarinnar.

Persónan Venom, sem einnig gengur undir nafninu Eddie Brock, birtist síðast á hvíta tjaldinu í túlkun Topher Grace í Spider-Man 3, sem Sam Raimi leikstýrði árið 2007.

Aðrir helstu leikarar eru Riz Ahmed, Michelle Williams og Reid Scott. Gangster Squad leikstjórinn Ruben Fleischer leikstýrir eftir handriti þeirra Scott Rosenberg og Jeff Pinkner. Stefnt er að frumsýningu kvikmyndarinnar 5. október á næsta ári.