Wall-E tónskáld semur Bond tónlist

Í fyrsta sinn síðan að Tomorrow Never Dies kom út árið 1997, mun einhver annar en David Arnold sjá um tónlistina í mynd um James Bond. Eins og kunnugt er vinnur nú leikstjórinn Sam Mendes hörðum höndum að myndinni Skyfall, sem kemur út í nóvember þessa árs, og hefur hann í samráði við framleiðendur myndarinnar fengið tónskáldið Thomas Newman til þess að stjórna tónlist myndarinnar. Newman hefur unnið með Mendes fjórum sinnum áður, við myndirnar American Beauty, Road to Perdition, Jarhead og Revolutionary Road. Hann hefur auk þess gert tónlist fyrir yfir 50 titla, meðal annars Erin Brockovich, The Shawshank Redemption og Wall-E. Þrátt fyrir mikla reynslu vekur þó athygli að Newman hefur ekki mikið fengist við hasarmyndir, þannig að það verður forvitnilegt að sjá hvernig afurðin kemur út.

Tónlistin þykir vera eitt af mikilvægustu hráefnum í kvikmyndunum um James Bond, og hafa mörg tónskáld komið að seríunni í gegnum árið, og eftirminnileg stef eru mörg. Frægast er þó ennþá sjálft James Bond stefið, sem Monty Norman samdi og John Barry útsetti fyrir Dr. No fyrir hálfri öld síðan. Barry var svo viðloðandi kvikmyndaseríuna með hléum allt þangað til að The Living Daylights kom út árið 1987, önnur tónskáld sem hafa spreitt sig á Bond myndum eru m.a. George Martin (framleiðandi bítlanna), Bill Conti og Eric Serra. Sú hefð myndaðist fljótlega að fá poppstjörnur til þess að syngja titillög myndanna, og hafa jafn ólíkir listamenn og Shirley Bassey, Tom Jones, Nancy Sinatra, Paul McCartney, Duran Duran, Aha, Tina Turner, Madonna og Chris Cornell tekið það hlutverk að sér. Ekki hefur verið tilkynnt hver fær þann heiður á 50 ára afmæli kvikmyndaseríunnar.

Í fyrstu var talið að David Arnold gæti ekki snúið aftur að Skyfall vegna skuldbindinga sinna við Ólympíuleikana í London sem fara fram í haust. Hann hefur þó sagt að það sé ekki rétt, heldur hafi leikstjórinn einfaldlega viljað breyta til. Hann hefur þó ekkert slæmar tilfinningar yfir því, segist hlakka til að horfa á myndina sem aðdáandi, og geti alveg hugsað sér að snúa aftur að seríunni síðar verði hann beðinn um það.

Eru einhverjir tónlistarnördar hér sem hafa álit? Mér hefur alltaf þótt vænt um James Bond tónlistina, en var aldrei mikill aðdáandi Arnolds tímabilsins. Þess vegna er ég sáttur með að fá ferskan andblæ inn í seríuna, og hlakka bara enn meir til myndarinnar.