Engillinn fallinn

Lionsgate framleiðslufyrirtækið hefur sent frá sér fyrstu stiklu fyrir hasarmyndina Angel Has Fallen. Þetta er þriðja myndin sem gerð er um leyniþjónustumanninn Mike Banning, sem Gerard Butler leikur. Aðrar myndir í seríunni eru Olympus has Fallen og London has Fallen.

Banning hefur í fyrri myndunum drýgt ýmsar hetjudáðir, og heldur því áfram í þessari að því er virðist, en Banning er aðal lífvörður forseta Bandaríkjanna, sem leikinn er af Morgan Freeman. En hetjan lendir í vanda þegar hann er sakaður um morðtilræði við forsetann.

Eins og sést í stiklunni eru þeir í góðum fíling saman úti á vatni að veiða, þegar gríðarleg drónaárás er gerð, sem á greinilega að granda forsetanum.

Opinber söguþráður er á þessa leið: Angel Has Fallen fjallar um morðtilræði við forseta Bandaríkjanna Allan Trumbull. Besti vinur hans, leyniþjónustumaðurinn Mike Banning, er sakaður um glæpinn, og er handtekinn. Eftir að hafa sloppið úr haldi, þá leggur Banning á flótta, og þarf nú að sanna sakleysi sitt.

Leikstjóri myndarinnar er Ric Roman Waugh ( Shot Caller ). Antonine Fuqua leikstýrði fyrstu myndinni en Babak Najafi þeirri næstu.

Handrit gera Robert Mark Kamen og Matt Cook.

Aðrir helstu leikarar eru Jada Pinkett Smith, Lance Reddick, Tim Blake Nelson, Piper Perabo, Nick Nolte og Danny Huston.

Tekjur Olympus Has Fallen námu 170 milljónum bandaríkjadala um heim allan, sem þýddi að hlaðið var í framhaldið London has Fallen árið 2016. Hún gerði enn betur, með tekjur upp á 205 milljónir dala. Því var ekkert til fyrirstöðu að gera þriðju myndina, sem nú er að detta í bíó í Bandaríkjunum 23. ágúst nk., en ekki er kominn frumsýningardagur fyrir myndina hér á landi enn amk.

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan og plakatið þar fyrir neðan: