Fyrstu Mary Poppins lögin frumsýnd

Fyrstu tvö lögin úr Mary Poppins framhaldsmyndinni, Mary Poppins Returns, sem væntanleg er í bíó hér á Íslandi á Jóladag, 26. desember nk. hafa nú verið birt í heild sinni á YouTube rás Disney afþreyingarrisans.

Um er að ræða lögin The Place Where Lost Things Go og Trip A Little Light Fantastic.

Fyrra lagið er einsöngslag þar sem aðalleikkonan Emily Blunt hefur upp raust sína, en hún tekur við hlutverkinu af Julie Andrews sem lék Mary Poppins í upprunalegu myndinni. Lagið er angurvær ballaða, ekki ósvipuð lögunum Stay Away og Feed the Birds úr fyrri myndinni.

Trip A Little Light Fantastic, er á hinn bóginn mun hressari ópus, en flytjendur þar eru allir aðalleikararnir, þar á meðal Hamilton höfundurinn Lin-Manuel Miranda.

Höfundar beggja laganna eru Marc Shairman og Scott Wittman, en þeir sömdu einnig tónlistina fyrir söngleikinn Hairspray frá árinu 2007, sem og leikhúsuppfærsluna af Charlie And The Chocolate Factory.

Í upprunalegu kvikmyndinni voru það Sherman bræður sem sömdu lögin, og lagið Chim Chim Cher-ee fékk Óskarsverðlaunin fyrir besta lag í kvikmynd.

Eins og fyrr sagði kemur myndin í bíó á Jóladag, en tónlistin verður aðgengileg á netinu frá og með 7. desember.

Auk Banks leika í myndinni þau Ben Whishaw og Emily Mortimer, auk Meryl Streep, Colin Firth og Angela Lansbury.

Dick Van Dyke er sá eini úr leikhóp fyrstu myndarinnar til að leika í nýju myndinni, en hann leikur Mr Dawes Jr, son mannsins sem hann lék í tveimur atriðum í Mary Poppins.