Gladiator 2 gerist 25 árum síðar

Gladiator 2, framhald Ridley Scott stórmyndarinnar Gladiator frá árinu 2000, er enn í vinnslu samkvæmt vefsíðu The Independent, og nú hafa nýjar forvitnilegar upplýsingar komið fram um myndina.

Crowe til alls líklegur.

Á síðasta ári var tilkynnt að Scott ætlaði sér að mæta aftur til leiks og leikstýra myndinni eftir handriti Peter Craig, en næsta mynd Craig í bíó er Top Gun framhaldið.

Lítið hefur hingað til verið að hafa af opinberum upplýsingum um myndina, en nú hafa Men In Black: International framleiðendurnir Walter F Parke og Laurie Macdonald, staðfest sögusvið Gladiator 2, við vefsíðuna HeyUGuys.

„Við erum að vinna með Ridley,“ sagði MacDonald. „Það myndum við ekki gera nema við hefðum eitthvað í höndunum. Við erum einnig að vinna með frábærum handritshöfundi, Peter Craig.“

Og Park hélt áfram: “Myndin heldur áfram 30 árum eftir að hin myndin endaði …. eða 25 árum síðar.“

Þetta gæti verið staðfesting á fyrri fregnum um að aðalpersóna sögunnar verði Lucius, sonur Lucilla og frændi Commodus, en þeir sem léku þessar persónur í fyrri myndinni voru Connie Nielsen og Joaquin Phoenix.

Á síðustu árum hefur Scott gert sér talsverðan mat úr Alien seríunni, og leikstýrði til að mynda Prometheus árið 2012 og Alien: Covenant árið 2017. Nýjasta mynd hans, All the Money in the World, var frumsýnd í janúar 2018.

Ástralski tónlistarmaðurinn Nick Cave skrifaði eitt sinn sína eigin tímaferðalags útgáfu af Gladiator 2, en þar voru rómverskir guðir búnir að reisa persónu Russell Crowe, Maximus Decimus Meridius, upp frá dauðum, til að berjast gegn ofsóknum á hendur kristnum mönnum.