Gladiator 2 hugmynd fædd í kolli Scott

Sautján ár eru núna frá frumsýningu Óskarsverðlaunamyndarinnar Gladiator, og maður gæti haldið, svona miðað við hvernig myndin endaði, að ekki væri hægt að gera framhaldsmynd. En það er samt einn maður sem telur að slíkt sé hægt þrátt fyrir allt – leikstjórinn sjálfur, hinn 79 ára gamli Ridley Scott.

EKKI LESA LENGRA ef þú hefur af einhverjum ástæðum ekki séð myndina og vilt ekki vita meira.

Í samtali við tímaritið Entertainment Weekly sagði leikstjórinn: „Ég veit hvernig ég get endurvakið hann. Ég var að spjalla eitthvað við myndverið  – „En hann er látinn“.  En ég veit um leið til að reisa hann aftur upp frá dauðum.

Hvort sem að það mun gerast eða ekki, veit ég ekki. Gladiator var frumsýnd árið 2000, og Russell [Crowe – sem lék aðalhlutverkið Maximus] hefur eitthvað breyst síðan þá. Hann er eitthvað upptekinn sem stendur, en ég er að reyna að fá hann til að hitta mig.“

Auk þess sem ferill Crowe tók stökk eftir Gladiator, þá hleypti myndin nýju lífi í feril Scott sömuleiðis, en eftir myndir eins og Alien, Blade Runner og Thelma and Louise þá var tíundi áratugur síðustu aldar frekar rólegur hjá leikstjóranum. Gladiator endaði með því að þéna meira en 456 milljónir bandaríkjadala um heim allan, og vinna fimm Óskarsverðlaun, þar á meðal sem besta mynd og fyrir bestan leik Crowe í aðalhlutverki.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hugmynd að framhaldi Gladiotor fæðist, því tónlistarmaðurinn Nick Cave skrifaði handrit að framhaldsmynd ( sem Crowe pantaði sjálfur ) , sem aldrei var gerð.

Í því handriti var gert ráð fyrir því að rómverskir Guðir myndu reisa Maximus upp frá dauðum, og hann myndi berjast í gegnum aldirnar allt fram til Seinni heimsstyrjaldarinnar, og að lokum fram til dagsins í dag.

Myndverinu fannst víst þessi hugmynd aðeins of skrýtin, eins og segir í frétt Yahoo News.

Næsta mynd Scott er Alien: Covenant, sem frumsýnd verður 4. ágúst nk.