Kvikmyndin Bullet Train, eða Hraðlestin í lauslegri íslenskri þýðingu, með Brad Pitt í aðalhlutverki er komin í bíó á Íslandi. Höfundur bókarinnar sem myndin er byggð á, Kotaro Isaka frá Japan, er einn vinsælasti spennusagnahöfundur landsins.
Gerast í borginni
Fjallað er um Isaka og myndina í nýrri grein í bandaríska blaðinu The New York Times, NYT. Þar segir m.a. að höfundurinn sé mjög heimakær og vilji helst ekki fara langt frá Sendai, borginni í norð-austur Japan sem hann býr í, en margar bóka hans gerast einmitt í borginni.
En þrátt fyrir það, þá var honum samkvæmt NYT alveg sama þó að japanskir leikarar væru ekki í aðalhlutverkum þegar Maria Beetle, skáldsaga hans frá 2010, var gerð að þessari Hollywood spennumynd með Pitt, Brian Tyree Henry og Joey King fremsta í flokki.
Sérkennileg blanda morðingja
Þegar Isaka var að semja Maria Beetle, sem fjallar um nokkra leigumorðingja sem fastir eru í sömu hraðlestinni, þá bjó hann til sérkennilega blöndu af persónum sem ekki eru „alvöru fólk, og jafnvel ekki einu sinni japanskir,“ eins og Isaka, 51 árs, orðaði það í nýlegu viðtali, sem tekið var steinsnar frá hraðlestarstöð borgarinnar.
Skáldsagan var upprunalega gefin út í Japan, en kom fyrst út á ensku á síðasta ári.
Með sína hröðu framvindu, litríku leigumorðingjum, fjölda fórnarlamba, unglingsþorpara með kvalalosta og beitta húmor, þá sá Isaka alltaf fyrir sér að sagan gæti orðið hin fullkomna Holllywoodmynd. Japanskt samhengið skipti þar ekki lykilmáli. „Ég hef enga sérstaka þörf fyrir að láta fólk skilja japanskar bókmenntir eða menningu,“ segir Isaka. „Það er ekki eins og ég sjálfur skilji Japan eitthvað sérstaklega mikið heldur.“
Að hluta skáldaleyfi
Það að snúa sögunni upp í bandaríska spennumynd með blöndu af bandarískum, breskum og japönskum leikurum, var að hluta til skáldaleyfi og að hluta viðskiptaákvörðun, eins og það er útskýrt í NYT. Þrátt fyrir að japanskar Manga teiknimyndasögur séu vinsælar utan Japans, þá hafa mjög fáar japanskar leiknar kvikmyndir eða sjónvarpsþættir með japönsku leikaraliði, slegið í gegn alþjóðlega á síðustu árum. Þar hefur Suður-kóreumönnum gengið betur með þætti eins og Squid Game og kvikmyndir eins og Parasite. Japönum hefur þó gengið vel með listrænar kvikmyndir eins og Óskarsverðlaunamyndina Drive My Car og Cannes verðlaunamyndina Shoplifters. Mikil velgengni í alþjóðlegri miðasölu hefur verið sjaldgæfari fyrir japanskt efni.
Nú þegar hafa komið fram kvartanir í asísk-bandarískum miðlum um hvítþvott, þ.e. að vestrænir leikarar séu valdir í stað asískra, til að auka möguleika á vinsældum myndarinnar. En samt sem áður eru í leikhóp Bullet Train svartir leikarar, leikarar frá rómönsku ameríku (e.latino) og japanskir.
Eins og sagt er frá í New York Times þá kvartaði David Inou, framkvæmdastjóri japansk-bandarísku borgarasamtakanna (Japanese American Citizens League) , um það við AsAmNews, að kvikmyndin „ýtti undir þá viðteknu skoðun að asískir leikarar í aðalhlutverkum valdi ekki stórmyndum (e.blockbuster), þrátt fyrir ýmis dæmi sem sanni annað, eins og t.d. Crazy Rich Asians og Shang-Chi.“
Heiðra japanska sál
Það að Isaka sjálfur telji persónurnar sveigjanlegar hvað þjóðerni varðar og uppruna „gaf okkur sjálfstraust til að heiðra japanska sál myndarinnar en á sama tíma að gefa kvikmyndinni möguleikann á að ná í stórar kvikmyndastjörnur og hugsa hana fyrir alþjóðlegan markað,“ sagði Sandford Panitch, forstjóri Sony Pictures Entertainment Motion Picture Group, framleiðslufyrirtækisins sem framleiddi Bullet Train, um gagnrýnina.
Fyrir hvern þann sem hefur upplifað stífar hömlur vegna Covid-19 faraldursins í Japan, þá er vera svo margra útlendinga í einu og sömu japönsku hraðlestinni, sem sögð er á leið frá Tókýó til Kyoto, í hæsta máta óvenjuleg og sýnir glöggt að kvikmyndin á sér enga samsvörun í raunveruleikanum, eins og það er orðað í grein New York Times.
Varðveittu japanskar persónur
David Leitch, leikstjóri Bullet Train, og handritshöfundurinn Zak Olkewicz, sögðu að þeir hafi viljað varðveita nokkrar af mikilvægustu persónum sögunnar – þrjár kynslóðir einu og sömu japönsku fjölskyldunnar.
„Fólk sem hefur kannski ekki séð kvikmyndina verður undrandi að sjá að söguþráðurinn er mikið til um japanskar persónur og þeirra sögu sem blandast inn í fléttuna,“ sagði Olkewicz, þó svo að þær persónur séu kannski ekki í miðdepli myndarinnar.
En í sögunni eru vestrænanr tengingar fyrir hendi: einn leigumorðinginn er heltekinn af barnasögunum um Thomas the Tank Engine, eða Tomma Togvagni. Því sé haldið vel til haga í myndinni. „Við vorum mjög meðvituð og vildum hafa alla með og hafa myndina alþjóðlega,“ sagði Leitch, sem leikstýrði Deadpool 2 og Atomic Blonde og var meðframleiðandi John Wick hasarmyndanna.
Fjölbreytileiki leikhópsins, segir hann, „sýnir styrk upprunalegu sögunnar og hvernig sagan getur verið hafin yfir kynþætti hvort sem er.“
Faraldur stoppaði
Leitch vonaðist eftir að geta tekið hluta myndarinar í Japan en faraldurinn stoppaði það.
Hann kveðst þakklátur fyrir að gróft ofbeldið í sögunni sé alls ekki sýnt á raunsæjan hátt. „Ég er ánægður að sagan gerist í framtíðarlegu Japan sem er eins og Gotham City,“ sagði hann. „Þetta er heimur sem fólk þekkir ekki.“
Gefið út meira en 40 skáldsögur
Isaka hefur gefið út meira en fjörútíu skáldsögu í heimalandinu sem margar hafa náð metsölu. Umboðsmaður hans vonast eftir að frægðin vaxi enn á vesturlöndum með frumsýningu Bullet Train.
Isaka, sem er sonur galleríeiganda frá Chiba, austur af Tókýó, ólst upp við lestur ráðgátna og spennutrylla, þar á meðal þýðinga á verkum Agatha Christie og Ellery Queen. Hann flutti upphaflega til Sendai til að læra lögfræði við Tohoku háskólann og byrjaði þar að skrifa smásögur. Eftir útskrift fór hann að vinna við kerfisstjórn, en vaknaði kl. 5 á hverjum morgni til að skrifa skáldverk. Oft fór hann með fartölvuna út á steinbekk við ána því íbúðin sem hann bjó í með konu sinni var svo ofboðslega lítil.
Fékk verðlaun árið 2000
Árið 2000 fékk saga hans Audubon´s Prayer Shincho nýliðaverðlaunin og tveimur árum síðar ákvað Isaka að segja upp dagvinnunni, í samráði við eiginkonu sina, enda væru engar líkur á að hann gæti skrifað eitthvað stórkostlegt samhliða annarri vinnu.
Nokkrar bóka hans hafa verið gerðar að kvikmyndum í Japan, en engin þeirra hefur verið sýnd í Bandaríkjunum.