Hildur er No Brainer í nótt segir akademíumeðlimur

Karlkyns framleiðandi og meðlimur í Óskarsakademíunni fjallar nafnlaust af fullri hreinskilni um hvaða Óskarsverðlaunahafa hann kaus, en dómur hans er birtur á vefsíðunni The Hollywood Reporter. Verðlaunin sjálf verða veitt í nótt að íslenskum tíma, eða frá klukkan 1 – 4.

Að sjálfsögðu tjáir hann sig um hvað hann kaus í flokknum besta tónlist, en þar eigum við Íslendingar fulltrúa; Hildi Guðnadóttur, sem samdi tónlistina í Joker.

Akademíumeðlimurinn segir að þessi flokkur sé algjörlega augljós, eða No Brainer, eins og sagt er á enskri tungu. Í fyrsta lagi byrjaði hann að geispa yfir nafni John Williams, sem fimm sinnum hefur fengið Óskarsverðlaunin, og er nú tilnefndur fyrir Star Wars: The Rise of Skywalker. Hann segir tónlist Alexandre Desplat fyrir Little Women vera ekkert sérstaka. Tónlistin í Marriage Story, segist hann hafa heyrt margoft áður. Um tónlist Thomas Newman í 1917 segir hann að hún sé kraftmikil og dýnamísk, og keyri myndina vel áfram. En það sé tónlist Hildar í Joker, sem sé algjörlega stórkostleg. „Hún var fersk. Hún var ný. Hún var ung. Hún var lifandi. Hún var ógnvekjandi. Hún var hrollvekjandi. Hún færði þig nær persónunni [ joker ].“

Hann klikkir út með að segja að tónlistin sé sú ferskasta í áraraðir.

Nú er bara að sjá hvað gerist í nótt – Áfram Hildur!