Aðalleikarar
Leikstjórn
Handrit
Við hverju bjuggust þið? The Haunting er einfaldlega fín afþreying og ekkert meiri en það. Þriggja stjörnu skemmtun og alveg þess virði að sjá. Ég meina, engin bjóst við meistarastykki. Okei, hún er ekkert vel leikin, sum atriði eru sorry-ass en í heild þá er þetta fín skemmtun. Reyndar finnst mér að Jan de Bont (leikstjórinn) gerði of mikið úr tæknibrellunum og mér brá eiginlega bara við atriði sem voru frekar "cheap", eins og nokkur draugahús atriði en hey mér brá, ég skemmti mér vel og fékk ekki martraðir. Einu sinni á hundrað ára fresti kemur mynd eins og Shining og 20 árum seinna talar fólk enþá um hana. En það gerist bara örsjaldan. Hvað hefur maður séð marga virkilega GÓÐAR hryllingsmyndir? Kannski Child´s Play 3? Eða Evil Dead 2? Kommon hryllingsmyndir EIGA að vera væmnar og "sorry-ass" og The Haunting er það einmitt. Að lokum vil ég taka fram að The Haunting er EKKI endurgerð af gömlu útgáfinu, en er gerð eftir bókina eftir Shirley Jackson. Leikstjórinn þurfti að sjá til þess að ekkert í nýju útgáfuni væri eitthvað líkt og í þeim gömlu vegna þess að þeir voru ekki með rétt til þess að herma eftir. Þess vegna eru kannski þeir sem sáu fyrri myndina vonsviknir...
Ömurleg endurgerð einnar albestu hrollvekju sem ég hef séð. Í frumgerðinni frá 1963 sagði frá dulfræðirannsóknum mannfræðings nokkurs í gömlu yfirgefnu stórhýsi, sem alræmt var fyrir meinta reimleika, en til liðs við sig fékk hann tvær skyggnar konur og frænda eigandans, yfirlýstan efnishyggjumann. Ekki leið á löngu þar til ljóst varð, að í húsinu byggi eitthvað verulega illt, sem reyndi að ná tökum á gestunum, en fyrir vikið runnu rannsóknirnar út í sandinn. Þetta var reglulega óhugnanleg kvikmynd, þar sem áherslan var lögð á ímyndunaraflið og óttann við hið óþekkta. Hún var ennfremur stórfenglega vel gerð, myndatakan með því besta sem ég hef séð, tónlistin frábær og leikurinn óaðfinnanlegur. Annað mál gildir um endurgerðina. Þar ætlar sálfræðingur nokkur að gera vafasama rannsókn á ótta undir því yfirskini, að hann sé að rannsaka svefntruflanir nokkurra sjálfboðaliða, en til þess velur hann gamalt og drungalegt stórhýsi, sem enginn vill búa í vegna meintra reimleika. De Bont fellur í þá gryfju að sýna draugana og leita skýringa á öllu saman, sem oftar en ekki verða að teljast afar langsóttar, en fyrir vikið veit maður svo til allan tímann við hverju má búast og allur óhugnaðurinn hverfur. Auk þess fer tæknivinnan langt yfir strikið, þar sem draugarnir geta, rétt eins og í kvikmyndinni Poltergeist, breytt húsinu að vild, fært til veggi og loft og tekið sér bólfestu í styttum og veggmyndaútskurði. Myndin er því frekar illa gerð, ofhlaðin tæknibrellum og handritið klúðurslegt. Það er með ólíkindum, að hægt skuli vera að endurgera jafn góða mynd jafn illa fyrir jafn mikla peninga eins og raun ber vitni í þessu tilfelli. Og til hvers að endurgera kvikmynd, sem er fullkomin? Nær hefði verið að endursýna hana í kvikmyndahúsum, enda full ástæða til. Forðist sem sagt endurgerðina, en sjáið fyrir alla muni frumgerðina. Breiðtjaldsútgáfa hennar er fáanleg á myndbandi í Bretlandi, en auk þess er hún alltaf sýnd öðru hverju á TNT sjónvarpsstöðinni.
Þessi mynd, The Haunting, þykist vera endurgerð samnefndrar myndar frá árinu 1963, en á í raun ekkert sameiginlegt nema nafnið og stórt, reimt hús. Sjaldan ef nokkurntíma hef ég labbað jafn fussandi og sveiandi útúr kvikmyndahúsi og þarf að leita aftur í Armageddon til að finna jafn mikil vonbrigði. Ekkert nema bull, vitleysa, bjánalegur söguþráður og tæknibrellurunk þó svo að leikarar reyni að gera gott þá hafa þeir ekkert í höndunum til að gera gott úr - svipað og að fá hóp bakarameistara til að gera drulluköku. Þó fer myndin þokkalega af stað, og fá byrjunin og leikarar, aðallega Kata Jones, því hún er svo sæt, hálfa stjörnu, restin ekkert. En sjáið endilega upphaflegu útgáfuna, hún er bráðskemmtileg og mun meira ógnvekjandi þrátt fyrir að í henni sé ekkert tæknibrellurunk.
Það er ekki hægt að mæla með þessari mynd. Ein af verstu hrollvekjumyndum sem ég hef séð. Myndin var ekkert þannig ógnvekjandi og þetta er eina hrollvekjumyndin sem ég var ekki hræddur á. Ég spyr bara hvernig er hægt að gera svona lélega mynd með svona góðum leikurum? Ég einhvern veginn skil það bara ekki.
The Haunting kom mér nokkuð á óvart. Fyrst hélt ég að hún yrði hræðileg, en Jan De Bont hafði ekki beint sýnt hæfileika sína í Speed 2, en eftir fyrri helming myndarinnar varð mér ljóst að nokkuð ágætis mynd var hér á ferð. Jæja, leikur og söguþráður voru ekki beint til þess að hrópa húrra yfir, en sviðsmyndin og stemningin sem De Bont skapaði kom manni í góðan hrollvekjufíling og varð ég því fyrir miklum vonbrigðum þegar myndin náði ekki að halda sér á floti í seinni helmingnum. Nokkur bregðuatriði hér, smá spenna þar, en lélegt handrit allstaðar. Og svo kom endirinn, en hvort sem þið trúið því eður ei þá er þessi ömurlegi endir kominn frá meistaranum Steven Spielberg, en hann hefur oft á tíð abbast upp á hrollvekjur (Poltergeist, anyone???). Ég var reiður er ég gekk út af myndinni, en því meira sem ég hugsa um hana, því meira verð ég ánægður með hana. Hægt er að ljúka þessu með því að segja að það er yndislegt að horfa á The Haunting, en kannski þreytandi að fylgjast með henni...
Um myndina
Leikstjórn
Handrit
Vefsíða:
Aldur USA:
PG-13
Frumsýnd á Íslandi:
8. október 1999
VHS:
23. mars 2000