Aðalleikarar
Leikstjórn
Handrit
Slæm endurgerð af Hitchcock myndinni Dial ‘M’ for Murder. Styrkleiki gömlu myndarinnar lá ekki síst í handritinu, þar sem fléttan kom hvað eftir annað á óvart og persónusköpunin var í senn margbrotin og heillandi. Í endurgerðinni hefur atburðarásin hins vegar verið einfölduð mikið og nokkrum klisjukenndum átakaatriðum skotið inn hér og þar. Hjá Hitchcock var þrjóturinn, sem var unaðslega vel leikinn af Ray Milland, bæði hraðlyginn og með eindæmum hugmyndaríkur, enda gat hann logið sig snilldarlega út úr hvers kyns ógöngum og ávallt snúið öllu sér í hag. Michael Douglas er hins vegar með öllu hugmyndasnauður fýlupoki, sem veit ekkert hvað til bragðs skuli taka, þegar fyrirætlanir hans ganga ekki alveg upp. Í rauninni var Milland mun nær því að takast ætlunarverk sitt en Douglas er nokkurn tímann í endurgerðinni og koðnar því spennan niður áður en varir. Auk þess voru þau Milland og Grace Kelly mun trúverðugra par en Douglas og Gwyneth Paltrow, sem eiga ekkert annað sameiginlegt en að auðsýna hvort öðru hina megnustu andúð. Persónusköpun þeirra er slík, að það er mér hulin ráðgáta hvernig þau gátu nokkurn tímann náð saman. Enda þótt frumgerðin sé á köflum eilítið gamaldags, stendur hún enn fyrir sínu sökum frumlegs handrits og góðs leiks, en breytingarnar í endurgerðinni eru allar til hins verra.
Það er spennumyndaleikstjórinn Andrew Davis sem gerði Under Siege, The Fugitive og Chain Reaction sem leikstýrir þeim Michael Douglas, Gwyneth Paltrow og Viggo Mortensen. Myndin er byggð á spennuleikritinu "Dial M For Murder" eftir Frederick Knott en eftir því gerði meistari spennunnar, Alfred Hitchcock, fræga og ódauðlega samnefnda mynd árið 1954 sem skartaði óskarsverðlaunaleikurunum Ray Milland og Grace Kelly. Þetta er vandaður tryllir með fléttu sem kemur stöðugt á óvart frá upphafi til enda og svíkur engan um toppskemmtun. Steven Taylor (Douglas) er milljónamæringur sem hefur auðgast á viðskiptum með verðbréf í New York og er mikilsvirtur í samfélaginu fyrir klókindi sín í kauphöllinni. Hann virðist eiga allt sem nokkur maður getur óskað sér en þó á hann ekki það sem hann þráir mest: Ást eiginkonu sinnar. Emily Bradford (Paltrow) er mun yngri en eiginmaður hennar og hefur fyrir löngu fengið leiða á hjónabandinu, enda getur hún ekki sætt sig við að vera bara sýningargripur eiginmanns síns gagnvart fyrirfólkinu í borginni. Hún hefur því á laun um nokkurra mánaða skeið átt í ástarsambandi við ungan og bláfátækan listamann, David Shaw (Mortensen), sem vonar stöðugt að hún skilji við Steven og giftist sér. En Steven er ekki alveg blindur á það sem er að gerast og þótt hann vonist í fyrstu til að geta lagað ástandið verður honum að lokum ljóst að Emily er að ganga honum endanlega úr greipum. Hann ákveður því að grípa til sinna eigin ráða og hefna sín á þeim skötuhjúum með ráðabruggi sem á að enda með dauða Emily. En margt fer öðruvísi en ætlað er og í ljós kemur að Steven er alls ekki sá eini sem hefur gert áætlun ... Ágætis kvikmynd sem nær góðu flugi en nær engan veginn að skapa sama heillandi andrúmsloft sem einkenndi hina ódauðlegu "Dial M for Murder" og nær engan veginn samleik aðalleikaranna á sama hátt og hjá Milland og Kelly. Paltrow og Douglas eru ágæt en til að þau séu trúverðug hjón er aldursmunur þeirra einfaldlega alltof mikill. En það er handritið sem heldur öllu á lofti, enda ekki hægt að eyðileggja það, enda er það eitt af bestu kvikmyndahandritum kvikmyndasögunnar. Semsagt talsverð vonbrigði, en ég gef myndinni engu að síður þrjár stjörnur; fyrir leikstjórnina og leik Gwyneth Paltrow en það má með sanni segja að hún minni mikið á þokkagyðjuna Grace Kelly á köflum í túlkun sinni. En Michael Douglas hefur átt betri tilþrif en hér. Samt sem áður mæli ég með henni, hún er ágæt skemmtun, en ég mæli hinsvegar eindregið með því að sem flestir kvikmyndaunnendur fari frekar fimmtíu ár til baka og kynni sér töfra þríeykisins Hitchcock, Ray Milland og Grace Kelly frá 1954. Frummyndin er þúsund sinnum betri og mun meira heillandi og spennandi
Þokkalegur spennuþriller með ágætis söguþræði. Fín afþreying en alls ekkert meistaraverk samt. Michael Douglas stendur sig vel að venju.
Þokkaleg spennumynd. Douglas leikur sitt hlutverk vel en að mínu mati var myndin frekar sérstök vegna þess að einu persónurnar sem áhorfandinn fær að kynnast eru þau þrjú, Douglas, Mortensen og Paltrow.
Um myndina
Leikstjórn
Handrit
Glenn Plummer, Patrick Smith Kelly
Kostaði
$60.000.000
Tekjur
$128.038.368
Vefsíða:
Aldur USA:
R
Frumsýnd á Íslandi:
9. október 1998
VHS:
15. febrúar 1999