Náðu í appið
Öllum leyfðÍ myndinni er ljótt orðbragð

About Schmidt 2002

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 14. febrúar 2003

Schmidt Happens

125 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 85% Critics
The Movies database einkunn 85
/100

Warren Schmidt hefur lifað öruggu og fyrirsjáanlegu lífi og unnið í tryggingabransanum í Omaha í Nebraska í mörg ár, en horfir nú fram á að fara á eftirlaun. Á sama tíma fer hann að horfast í augu við eigin veruleika, eiginkonu sína, líf sitt, og samband við burtflutta dóttur. Ýmislegt bráðfyndið kemur uppá þegar Schmidt fer í ótútreiknanlega ferð... Lesa meira

Warren Schmidt hefur lifað öruggu og fyrirsjáanlegu lífi og unnið í tryggingabransanum í Omaha í Nebraska í mörg ár, en horfir nú fram á að fara á eftirlaun. Á sama tíma fer hann að horfast í augu við eigin veruleika, eiginkonu sína, líf sitt, og samband við burtflutta dóttur. Ýmislegt bráðfyndið kemur uppá þegar Schmidt fer í ótútreiknanlega ferð á húsbíl í brúðkaup dóttur sinnar í Denver.... minna

Aðalleikarar


About Schmidt er vönduð mynd og ég skil ekki af hverju kvikmyndir.is gáfu henni tvær og hálfa stjörnu. Warren Schmidt (Jack Nicholson) er nokkurn veginn á niðurleið. Hann er búinn að leggjast í helgan stein í starfi sínu og konan hans deyr þannig að hann fer í húsbíl í brúðkaup dóttur sinnar. Á leiðinni hittir hann margt skrýtið fólk og það kemur í ljós að maðurinn sem dóttir hans er að fara giftast er rugludallur og fjölskylda hans er jafnvel enn ruglaðri. Myndin er frá Alexander Payne sem gerði Election sem er reyndar ekki jafn góð og þessi. Myndin er sorgleg,fyndin og áherslan er aðalega lögð á þessi tvö atriði sem er svartur húmor og dramatík. Myndin var tilnefnd til nokkura Óskarsverðlauna en afsakið, ég man ekki eftir hvort að hún vann. Heitapotts atriðið með Kathy Bates er-Varúð- ekki fyrir viðkvæma!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Jack Nicholson er alltaf jafn góður eins og í þessari svörtu komedíu. Jack missir konuna sína og heldur í ferðalag á húsbíl í brúðkaup dóttur sinnar. Hann styrkir munaðarleysingja í Afríku og hittir marga skrýtna í ferð sinni. Kærasti dóttur hans er mjög skrýtinn eins og allt annað fólk í fjölskyldu hans.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Myndin About Schmidt er mjög vel heppnuð drama mynd sem kemur manni bæði til að hlægja með soldið svörtum húmor og hugsa sig aðeins um. Jack Nicholson leikur mannin Schmidt sem er orðinn mjög leiður á lífinu og lætur ýmislegt fara í taugarnar á sér og byrgir upp mikla reiði og vanlíðan. Hann missir konuna sína og reynir að fá dóttur sína til að hætta við að giftast kærasta sínum, því honum líst ekkert á það. Jack Nicholson stendur sér frábærlega í sínu hlutverki en þetta passar einmitt fyrir hann.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Jack Nicholson fer á kostum í þessari mynd. Það er enginn vafi á því að þetta er ein albesta frammistaða hans langa og gifturíka ferils. Warren Schmidt, persóna hans í myndinni, er mjög langt frá þeim persónum sem hann hefur leikið hingað til. Hann leyfir sjálfum sér að vera ekki gamli úlfurinn með glottið, heldur gamall og brotinn maður sem er fullur af eftirsjá eftir lífi sem hann telur sig hafa sóað. Maður getur ekki annað en fyllst samúð með þessum manni, sem uppgötvar í lok myndarinnar hvað það er sem í rauninni gefur lífinu gildi. Einhverjir hafa verið að kvarta yfir því að myndin reyni að stjórna manni tilfinningalega, og láta mann finna fyrir ákveðnum hlutum. Ég er alls ekki sammála því. Myndin er einmitt mjög lágstemmd og reiðir sig alls ekki á einföld brögð eins og tónlist til þess að kalla fram ákveðin tilfinningasvör. Hún gefur sér einmitt tíma til þess að leyfa manni að finna manneskjurnar fyrir neðan yfirborðið. Í staðinn fyrir að láta mann fá einhverjar stereótýpur, þá sýnir hún bara fólk eins og það er, bæði með alla sína galla sem og kosti. Kathy Bates er algjör snillingur, og enn og aftur fer hún á kostum. Það er ekki að ósekju að hún er talin með bestu leikkonum samtímans. Fleiri leikarar fara vel með sín hlutverk, og myndin er afbragðsvel leikin á alla kanta. Alexander Payne er afar hæfileikaríkur leikstjóri sem hefur vit á því að einblína á persónur og sögu. Hann hefur hér skapað áhrifaríka og ágenga kvikmynd sem virkilega stendur fyrir sínu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Alexander Payne (sem gerði síðast hina frábæru Election) rær hér á dálítið önnur mið. Mynd hans fjallar um Warren Schmidt (Jack Nicholson), maður sem hefur unnið alla ævi sem varaaðstoðarforstjóri (hvað sem það nú annars er) hjá tryggingafyrirtæki í Nebraska. Hann hefur aldrei tekið neina áhættu í lífinu, hefur alltaf unnið hjá sama fyrirtæki, hefur verið giftur konunni sinni (Hope Davis) í 42 ár og á með henni dóttur (June Squibb) sem vill sem minnst af honum sjá. Það byrjar að renna upp fyrir honum ljós þegar hann neyðist til að fara á eftirlaun vegna aldurs að hann hefur sóað lífi sínu. Hann hefur verið fastur í vinnu sem hver sem er hefði getað gert að því er virðist og hann er giftur konu sem hann uppgötvar allt í einu að hann þekkir ekki neitt. Stuttu eftir að hann hættir í vinnunni deyr konan hans. Hann gerir sér þá grein fyrir að hann sjálfur eigi kannski skammt eftir ólifað og einsetur sér að gera eitthvað merkilegt við líf sitt áður en hann hrekkur upp af. Hann byrjar að styrkja 6 ára munaðarleysingja í Tansaníu og sendir honum bréf þar sem hann loksins hættir að byrgja allt inni og leyfir sér að láta allt flakka. Auk þess, þegar hann fréttir af því að dóttir hans er að fara að giftast, að því er honum finnst, algerum aula (Howard Hesseman). Schmidt einsetur sér að reyna að stoppa brúðkaupið og tekst því á hendur ferðalag á risahúsbílnum (sem konan hans heitin vildi endilega kaupa) til dóttur sinnar.

Allt í lagi, það kemur svo sem ekki neitt nýtt fram í myndinni. Maður hefur ég veit ekki hvað oft séð myndir áður þar sem að manneskja finnur sjálfa sig eftir að hafa verið týnd í fjöldamörg ár. Auk þess er myndin á köflum ansi manipulative (afsakið slettuna). Manni er stýrt talsvert að því hvernig maður eigi tilfinningalega að bregðast við í þetta og þetta skiptið. Þetta eru gallar myndarinnar en kostirnir eru fleiri.

Það er í rauninni mjög velkomið að sjá mynd gerða um þjóðfélagshóp sem venjulega er ekki miklu kastljósi beint að, eldri borgurum. Og að myndin sé gáfuleg og mjög mannleg í þokkabót og auk þess hafa til að bera þá sæmd að sýna þetta fólk ekki sem einhverjar kómískar steríótýpur heldur sem ósköp venjulegt fólk, með öllum sínum kostum og göllum, er orðið mjög sjaldgæft fyrirbæri, því miður.

Leikararnir halda myndinni mjög mikið uppi og er leikurinn magnaður, svo vægt sé til orða tekið. Ber þar fyrst að nefna Nicholson sjálfan. Þetta er einfaldlega ein af hans bestu og um leið óvæntustu frammistöðum á ferlinum. Warren Schmidt er eins ólíkur Nicholson og maður gæti ímyndað sér. Nicholson, sem er þekktur fyrir að hafa alltaf lifað hátt og hratt, og hefur oft leikið karaktera eftir því, er gjörbreyttur hér. Hann leikur þennan lítilfjörlega smáborgara, fullan af reiði og eftirsjá, þá fyrst og fremst út í sjálfan sig, fyrir að hafa alltaf valið auðveldu leiðina, alltaf öruggu leiðina. Þetta er það sem einfeldnin og öryggið hefur skilað honum, gjörsamlega innihaldslausu lífi. Nicholson tekst algjörlega að hverfa inn í þennan karakter og gera hann fullkomlega trúverðugan. Sá átti skilið Óskarstilnefninguna og gott ef hann vinnur hann bara ekki.

Kathy Bates fer síðan á kostum, eins og venjulega, sem móðir brúðgumans og höfuð þessarar undirfurðulegu hillbilly-fjölskyldu sem dóttir Schmidts er að fara að giftast inn í. Hún er fullkomin andstaða Schmidt. Hún er kannski ekki jafn vel stæð en hún hefur þennan takmarkalausa lífsþrótt og lífsgleði, ólíkt Schmidt. Bates, sem alltof sjaldan fær hlutverk við sitt hæfi, gerir eins mikið úr því og hún getur og fer á algjörum kostum. Sama má segja um Howard Hesseman sem mér fannst frábær sem hinn frekar fattlausi og misheppnaði tengdasonur.

Myndin er talsvert meira drama heldur en ég bjóst við. Ég hélt að þetta væri svört kómedía en þetta er í raun tragidía um mann sem á stutt eftir, hatar líf sitt og veit ekki hvernig hann á að brjótast út úr því munstri sem hefur smátt og smátt verið að draga úr honum lífið. Það eru kómískir yfirtónar, eins og með Bates og Hesseman, en undirtónninn er alltaf harmleikur. Það mætti segja að á endanum nái Schmidt að sættast við sjálfan sig, jafnvel þó að það sé ekki á þann hátt sem maður heldur. Kannski er það einum of augljós sannleikur í endann en Nicholson er svo góður að maður lítur framhjá því. Átakanleg mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

22.01.2012

Annar gullmoli frá frábærum leikstjóra

Alexander Payne er heldur betur ómetanlegur gæi sem virðist stöðugt hækka í áliti hjá mér, þrátt fyrir að vera nú þegar einn af skemmtilegri leikstjórum sem eru til þarna úti. Alveg frá því að ég sá hina stórfínu E...

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn