Náðu í appið
Bönnuð innan 16 ára

Pathfinder 2007

Frumsýnd: 27. apríl 2007

Two Worlds, One War. The Ultimate Battle Begins.

99 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 8% Critics
The Movies database einkunn 29
/100

Ungur víkingastrákur er skilinn eftir hjá árásargjörnum ættbálki indjána, sem taka hann inn í ættflokkinn og ala hann upp. Þegar víkingarnir koma aftur 15 árum síðar og gera grimmilega árás á indjánaættbálkinn og konuna sem hann elskar, þá tekur hann til sinna ráða.

Aðalleikarar


Þessi mynd féll í skuggann á 300 og Beowulf á sínum tíma. Ekki skrítið, enda eru þær báðar mun betri en Pathfinder. Myndin fjallar um hvítan (íslensku-talandi) víking sem er ættleiddur af indjána ættbálki. Þegar hann er orðinn stór og stæltur snúa víkingarnir aftur og hjólin fara að snúast.

Nýsjálenski leikarinn Karl Urban fer með aðalhlutverkið og skilar sínu ágætlega. Flestir þekkja hann sem Eomer úr LOTR 2 og 3. Það er reyndar grátlega fyndið þegar hann og víkingarnir reyna að tala forn-íslensku, allt erlendir leikarar. Myndin reynir ekki að vera sögulega rétt og víkingarnar er kynntir sem blóðþyrstir barbarar. Þeir fara bara frá þorpi til þorps í þeim eina tilgangi að drepa alla sem þeir sjá, ekki til að stela. Ekki alveg sú ímynd sem maður vill að menn hafi af útrásarvíkingum. Minntu helst á Uruk-Hai í Lord of the Rings. Reyndar minnti myndin helst á Rambo eða Tarzan. Handritið er ekki sannfærandi en þrátt fyrir allt þetta er myndin bara ágæt afþreying ef maður er með engar væntingar. Blóðið flæðir í stríðum straumum, víkingarnir eru grimmir og svalir og umhverfið allt er mjög vandað. Fín þynnkumy
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Flott lúkk og ágætis spólumynd
Mér fannst allt lúkkið á þessari mynd nokkuð skemmtilegt, svona röff, dökt og næstum svarthvítt. Þetta er auðvitað óttaleg b-mynd, en samt hægt að skemmta sér yfir henni. Þetta er endurgerð af norskri mynd þar sem Helgi Skúlason lék vonda kallinn. Söguþráðurinn heldur sig furðulega nálægt upprunalegu sögunni. Það er líka gaman að reyna að skilja íslenskuna „auka fyrir auga“. Þetta snýst semsagt um Ghost sem er víkingur en var alinn upp af Sami fólkinu sem býr í norður Skandinavíu. Víkingarnir eru sýndir sem ófreskjur og villimenn, eins og hálfgerðir orkar. Þeir ganga semsagt berserksgang og drepa allt Sami fólkið.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Hahahahaha!! Þessi mynd er svo óviljandi fyndin að það hálfa væri nóg. Þó mig langi til að fá þessa tvo tíma og 900 krónurnar til baka, þá er ég að pínulitlu leyti sáttur með að hafa séð þessa mynd, því að hún er svo léleg að ég met aðrar myndir miklu hærra. ATH: Textinn gæti innihaldið spoilera (ekki það að það skipti máli)!

Sagan er klisjukennd, heimskuleg og óraunveruleg og hrein móðgun að líkja henni við 300. Þær eiga ekkert sameiginlegt. Aðalpersónan er hvítur víkingadrengur sem alinn er upp af indíjánum, eftir að hann varð viðskila við skrímslið föður sinn í ránsferð víkinga til Ameríku er hann var barn. Indíjánarnir (sem by the way eru einhverjir þeir heimskustu sem sést hafa á hvíta tjaldinu), hafa enn ekki samþykkt hann í hópinn og er hann í bömmer yfir því. En svo gerast hræðilegir atburðir og hópur blóðþyrstra og ómannlegra norðurlandabúa (einhverskonar blanda Norðmanna, Íslendinga og Svía af ólíkum tungumálum þeirra að dæma) gerir strandhögg í þorpinu hans meðan hann er á veiðum. Víkingarnir (án nokkurrar sýnilegrar ástæðu) drepa og pynta alla íbúana sem allir eru svo aumir og heimskir að þeir geta ekki veitt neina mótspyrnu. Svo mætir kappinn á staðinn og tekur æðiskast, þar sem hann ákveður að elta uppi víkingana og drepa þá einn af öðrum. Með frumstæð verkfæri að vopni, þroskaheftan hjálparkokk og einhverskonar yfirskilvitlega vitsmuni býr hann til fjöldan allan af gildrum til að klekkja á óvininum sem leiðir til (óviljandi) fyndnasta atriði myndarinnar, en það er þegar víkingarnir eru við það að detta ofan í felligildru að teiknimyndastíl, þá stekkur fram hópur af nautheimskum indíjánum sem lenda í gildrunni (sem er skrítið því indíjánarnir eiga að gjörþekkja þetta svæði og ef ég man söguna rétt voru indíjánar miklir gildrusmiðir, þ.e. veiddu bjarndýr ofl.) En allavega nær kappinn að bjarga deginum að lokum, einn síns liðs, eitthvað sem hópur af þrautþjálfuðum indíjánabardagaköppum gat ekki.

Myndin er uppfull af heimskulegum plott-holum sem gerir hana að algerri vitleysu sem skilur eftir sig mjög margar spurningar og er að mínu mati móðgun við sæmilega þenkjandi fólk. Hún ætti að fá fýlukall í kladdann en hlægileg heimska indíjánanna og fáránleg samtöl víkinganna á ólíkum tungumálum eru svo fyndin að hún fær hálfa fyrir það.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Clancy Brown talar íslensku!
Fyrir okkur íslendinga er Pathfinder fyrirtaks grínmynd. Utanaðkomandi augu munu sennilega bara sjá hana sem þessa þurru og ófrumlegu ævintýramynd sem hún er.

Það ætti að vera auðséð staðreynd, en vönduð búningahönnun og umgjörð nægir ekki til að móta stöðuga og áhrifaríka heild. Þessi mynd er algjör beinagrind. Söguþráðurinn gæti ekki reynst meira hefðbundinn og litlaus (þið getið séð þetta sama plott útfært miklu betur í Apocalypto). Allar persónur myndarinnar fuðra upp og skilja nákvæmlega ekkert eftir sig, jafnvel lykilpersónan, sem leikin er af Karl Urban. Þessi maður gerði ekkert nema góða hluti í Hringadróttinssögu, og nú er hann niðursokkinn í fyrirsjáanlega og óspennandi B-mynd. Hans vegna vona ég að eitthvað gangi betur á næstunni.

Eins og ég áður gaf til kynna er myndin einnig drepfyndin næstum því út alla lengdina, þó svo að það séu eflaust bara við íslendingar sem að upplifa slíkan hlátur. Víkingarnir í þessari mynd eru þeir einu sem setja einhvern eftirminnilegan punkt á myndina, og þá ekki bara vegna þess að hönnunin á þeim er svo gríðarlega kjánaleg og yfirdrifin (ásamt því að vera langt út frá sögulegu samhengi), heldur tala þeir einhverja lélegustu og ryðguðustu íslensku sem ég hef nokkurn tímann orðið vitni af. Karl Urban tautar jafnvel sjálfur nokkrar línur, sem því miður heppnast svakalega illa hvað skilning varðar. Að segja að þessi íslenska sé hörmuleg er of vægt til orða tekið. En það má hafa gaman af henni fyrir vikið.

Útlit myndarinnar er annars eitthvað svo kalt og leiðinlegt. Brellurnar líta oft út eins og þær séu úr fókus og eiginlega bara allt sem að viðkemur tæknivinnslu er einkum lélegt.

Pathfinder er klárlega ein af verstu myndum þessa árs. Sem betur fer nær maður að skemmta sjálfum sér yfir öllu því vonda (þó svo að ég hafi engan áhuga að sjá ræmuna aftur), en ég efast um að það hafi verið markmið leikstjórans.

2/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Pathfinder er markaðsett sem epísk spennumynd, henni er jafnvel líkt við 300 í auglýsingu frá Smárabíó. Sannleikurinn er sá að hvorug yrðingin er rétt, Pathfinder er grínmynd. Hún var svo léleg að nánast allir í salnum hlógu í atriðum sem áttu ekki að vera fyndin. Þannig er að í upphafi myndar er sagt eitthvað á þá leið að 600 árum áður en Kólumbus „fann“ Ameríku hafi þjóð úr norðri komið þangað, þetta væri goðsagan um þá. Þeir sem fylgdust með í skóla vita að hér er átt við Íslendinga. Þegar víkingarnir loksins mættu voru þeir svo yfirdrifnir að það hálfa væri hálfum of mikið. Sumir töluðu bjagaða norsku meðan aðrir bulluðu bara eitthvað sem hljómaði norrænt og jafnvel voru nokkrir sem náðu íslenskunni nokkuð vel. T.d. er eitt langt atriði þar sem allir sem einn segja: „þarna er hann,“ hvert skipti sem þeir sjá söguhetjuna. Ekki nóg með að víkingarnir töluðu ekki sama tungumál heldur voru þeir gríðarstórir með ör í framan og höfðu gaman af því að stinga smábörn og steikja menn lifandi. Ég er nokkuð viss um að bændurnir okkar til forna hafi ekki verið svona gríðarlega íllskeyttir þó þeir hafi reyndar átt það til að berjast með innyflinn hangandi út úr sér eins og kemur fram í Gísla sögu Súrssonar. Niðurstaðan er sú að nú veit ég hvernig afkomendum Majanna líður eftir Apocalypto. Íslensku víkingarnir eru gerðir að sálarlausum drápsskrýmslum, fjarri því sem raunin var. Það er því ljóst að Hollywood menn sem og Ottó Ólafsson, annar íslenskuráðgjafa myndarinnar, þurfa að vinna heimavinnuna sína betur því þetta er öllum íslendingum til skammar með meiru.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn