Náðu í appið
11
Bönnuð innan 12 ára

The Twilight Saga: Eclipse 2010

(Twilight 3, Eclipse, Sólmyrkvi, Twilight: Eclipse)

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 30. júní 2010

It all begins ... With a choice

124 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 46% Critics
The Movies database einkunn 58
/100

Bella er flutt aftur til Seattle eftir atburðarásina úr New Moon, en hefur ekki verið lengi þar þegar hún er enn á ný umkringd háska. Seattle-búar eru á barmi ofsahræðslu þegar röð dularfullra morða ríður yfir borgina. Á sama tíma er illskeytt vampíra í blóðugri hefndarför sem setur Bellu í stórhættu. Á meðan allt þetta á sér stað færist Bella... Lesa meira

Bella er flutt aftur til Seattle eftir atburðarásina úr New Moon, en hefur ekki verið lengi þar þegar hún er enn á ný umkringd háska. Seattle-búar eru á barmi ofsahræðslu þegar röð dularfullra morða ríður yfir borgina. Á sama tíma er illskeytt vampíra í blóðugri hefndarför sem setur Bellu í stórhættu. Á meðan allt þetta á sér stað færist Bella enn nær þeim tímapunkti þar sem hún þarf að gera endanlega upp á milli ástar sinnar á Edward og vináttu sinnar við hinn hverflynda Jacob. Það sem gerir þessa ákvörðun enn erfiðari er vitneskja hennar um að það sem hún ákveður getur haft afdrífaríkar afleiðingar og mikil áhrif á hina stöðugu og aldagömlu baráttu milli vampíra og varúlfa.... minna

Aðalleikarar

Þolanleg en tilgangslaus
Twilight serían hefur fangað hug og hjörtu unglinga(þá sérstaklega af kvenkyninu) og er því serían nánast skotheld fyrir gagnrýni því aðdáendur munu sjá nýjustu myndina hvort sem hún fær lof gagnrýnenda eða ekki. Ástarþríhyrningurinn heldur áfram milli Bellu, Edwards og Jacobs en þessi átök hjá þeim hafa minna vægi í þetta skipti en í New Moon þar sem myndin byrjar og endar á sama punkti sambands þeirra þriggja.

Það sem er best við þessa í seríunni er að persónurnar í bakrunninum fá einhverja persónusköpun og hefur ekkert af þremenningunum fengið jafn mikla persónusköpun eins og aukapersónurnar Jasper, Rosalie. Þessar baksögur hefðu getað verið gerðar að stökum kvikmyndum þar sem þær eru mun áhugaverðari en aðalpersónur Twilight seríunnar.

Ólíkt fyrstu tveim myndunum í seríunni er þessi í höndum leikstjóra sem virðist skilja hvað aðdáendum finnst gott við Twilight og færir áhorfendum mun meira augnkonfekti(ekki manservice heldur betri framleiðslu fyrir kostnaðinn og stílfærðara útlit) og nær að kreista bærinlega frammistöðu úr aumkunarverðu aðalleikurunum. Önnur góð viðbót er Howard Shore sem semur tónlistina fyrir Eclipse, tónlistin er ekki mjög áberandi en þó betri en áður.

Það versta er náttúrulega að þetta er kvikmynd sem er alltof löng, skilar of litlu og er ennþá föst í að fylgja bókunum eftir eins mikið og hægt er. Þetta verður til þess að Bella er ennþá dæmigerð Mary Sue týpa, Edward hefur ekki ennþá persónuleika og Jacob er byrjaður að líkjast nauðgara í hegðun og samtölum. Það eina sem Bella og Edward tala um í myndinni er hvenær þau munu giftast og hvenær hann mun breyta henni í vampíru. Samtöl Bellu og Edwards eru þó aðeins hluti af þvinguðum setningum og samtölum sem koma fram í myndinni, ýmsar fléttur eru fyrirsjáanlegar langar leiðir og engin raunveruleg spenna er í gangi þar sem t.d. Alice getur séð í framtíðina og eyðileggur þar með alla brýnd sögunnar.

Það er engin ástæða til að sjá Eclipse nema þú sért aðdáandi seríunnar og það er ég svo sannarlega ekki.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Slade bjargar því sem bjarga skal
Eclipse á í rauninni ekki skilið að fá hærri einkunn heldur en fimmu en ég hef kosið að hækka hana rétt svo til að undirstrika það að hér sé um talsverð framför að ræða, alveg eins og New Moon var örlítið skárri en Twilight nema hér er munurinn aðeins meira áberandi. Ég get ekki sagt að þetta sé góð mynd en hún er án efa vandaðri heldur en hinar, sem að sjálfsögðu gefur líka til kynna að hún er ekki eins hallærisleg. Ástæðuna má rekja til leikstjórans David Slade, sem gerði Hard Candy og 30 Days of Night (annað vampírumiðjumoð). Báðar myndirnar voru stílískar og heldur grimmar, en það sem Slade tekst að gera við Twilight-seríuna - fyrir utan það að dekkja hana aðeins - er að koma aðeins meira skipulagi á söguna og kreista trúverðugri leik úr fólkinu á skjánum. Ekki samt halda að þessi mynd sé laus við augnablik sem vekja upp hlátur á óviðeigandi stöðum, því það er alveg eitthvað af þeim, en hins vegar hefur þessi mynd eitthvað sem hinar gerðu ekki: atburðarás sem virðist stefna eitthvert. Loks finnur maður fyrir einhverri alvöru sögu.

Persónurnar eru líka orðnar aðeins þolanlegri að mínu mati, en það segir mjög lítið. Bella (Kristen Stewart), sem betur fer, vælir ekki eins mikið hér og í síðustu mynd en hún er enn sama líflausa gellan sem virðist aldrei geta ákveðið sig um neitt en nýtur þess í botn að vera með tvo karlmenn á eftir sér (besta lýsingin sem mér dettur í hug fyrir hana væri yfirnáttúrulegt "cock tease." Kannski er það bara ég). Ég get vel ímyndað mér að þessi persóna komist betur til skila í bókunum (ekki hugmynd, enn ekki lesið þær - og mun ekki gera það) en í myndunum líkar mér bara ekkert við hana og þar að auki er mér skítsama hvaða ákvarðanir hún tekur. Þeir sem komu mest á óvart voru Jacob (Taylor Lautner) og Edward (Robert Pattinson). Þannig séð hafa þeir lítið breyst; Jacob er enn ýtinn og elskar fátt meira en að sýna á sér vöðvana í engum bol (það er m.a.s. kommentað á það). Síðan virðist Edward í langflestum senum vera áhugalaus eða skakkur, alveg eins og áður fyrr. Þessi mynd gefur samt þessum tveimur karakterum aðeins meira til að vinna með og samspil leikaranna kemur alls ekkert illa út. Það kom mér líka óvart að sjá aukapersónurnar gera aðeins meira en áður og einnig er gerð smá tilraun til þess að gefa nokkrum þeirra aðeins meiri dýpt. Ekki slæmt, fyrir utan það að það eru svona 50 karakterar í allri myndinni og slatti af þeim kemur bara og fer eftir þörfum. Skjátíminn hjá illmönnunum er t.d. algjört grín. Bryce Dallas Howard þarf að vera meira kjörkuð og hætta að láta vaða svona yfir sig. Hún er næstum því jafn vannýtt hér og í Terminator Salvation.

Annars, ef það er eitthvað sem allar þrjár myndirnar hafa staðið sig prýðilega með, þá er það það að valda heljarinnar vonbrigðum þegar líður að lokum. Þessi anti-climax fílingur var nógu slæmur í Twilight og New Moon en hérna, meira svo heldur en áður fyrr, er maður margfalt líklegri til að öskra á skjáinn: Er... þetta... virkilega... allt og sumt?!? Ég myndi jafnvel ganga svo langt með að kalla þessa mynd mjög fína (í staðinn fyrir rétt svo ágæta) hefði endirinn skilið ekki aðeins meira, heldur EITTHVAÐ, eftir sig. Mér leið eins og sagan hafði náð ágætri uppbyggingu fram að seinasta korterinu. Ef hörðustu aðdáendur kalla þetta ásættanlegan endi þá er það lið óskiljanlegt í mínum huga og þarf hiklaust að fara að finna sér meira efni til að lesa eða glápa á.

Eclipse er þó sjónrænt séð sú besta í röðinni. Brellurnar eru mistækar en þó betri en í síðustu mynd og það sem ég fíla hvað mest við útlitið er myndatakan og sérstaklega litanotkunin. Ég þoldi ekki hvað Twilight var köld, hrá og áberandi ódýr að útliti (hristingurinn í myndavélinni gerði heldur ekkert betra). New Moon leit töluvert betur út og nýtti liti mjög vel og þessi gerir það sama. Stíllinn er álíka kaldur hér og í fyrstu myndinni, en Slade leikur sér betur að honum heldur en Catherine Hardwicke gerði. Slade virðist einnig vera með betri tónlistarsmekk heldur en Hardwicke og Chris Weitz, en þó svo að tónlistin í þessari hafi ekki verið neitt sérstök þá passaði hún klárlega betur við mikilvægu senurnar hér heldur en áður. Svo er það risastór plús í sjálfu sér hvað þessi mynd tekur sig örlítið minna alvarlega heldur en hinar gerðu, og í fáeinum senum er eins og Slade sé hálfpartinn að gera grín að samtölunum ("Let's face it, I am hotter than you" – ómetanlegt!) eða jafnvel koma með persónulegar athugasemdir á þetta Twilight-fyrirbæri.

Spurningin er samt þessi: Mun Eclipse laða að sér nýja aðdáendur sem ekki voru ánægðir með fyrstu tvö eintökin í þessari gelgjuseríu? Og svarið er: ENGAN VEGINN. Þessi mynd þjáist alveg af sömu vanköntum og hinar nema þessi virðist bara vera heppilega stjórnuð af manni sem virkilega vissi hvað hrjáði þær svo svakalega og ákvað að lagfæra það sem hann gat. Þessi sería hefur samt lítið breyst í áliti hjá mér. En ef ég myndi horfa á eitthvað af þessum myndum aftur, þá væri það Eclipse. Með rétta leikstjóranum gæti sú næsta, Breaking Dawn, orðið fín en miðað við það sem ég hef heyrt um efnisinnihald þeirrar bókar (þar sem söguþráðurinn byrjar að vera bæði súr og kolruglaður) þá ég mjög erfitt með að sjá það fyrir mér. Þessi sería hefur kannski einhverja spretti, en það er gjörsamlega ómögulegt að forðast kjánahrollinn og þess vegna efa ég að ég muni nokkurn tímann kynna mér þetta allt aftur um leið og myndaserían klárast.

6/10 - Rétt snertir sexuna.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn