Ástir á tennisvellinum

Í nýrri kvikmynd Call Me By Your Name leikstjórans Luca Gaudagnino, Challengers, sem komin er í bíó hér á Íslandi, keppa tveir bestu vinir og tennisleikarar, Patrick og Art, um ástir ofur-tennisstjörnunnar Tashi Duncan. Fyrst er þetta saklaust daður en alvaran eykst eftir að ferill Tashi endar skyndilega vegna meiðsla. Hún snýr sér að þjálfun, giftist Art og hvetur hann til að taka fyrrum elskhuga sinn Patrick í bakaríið á tennisvellinum. En þar með er ekki öll sagan sögð.

„Mér finnst þeir allir mjög fínir og heillandi – og hræðilegir einnig,“ segir Zendaya um meðleikara sína og brosir í samtali við bandaríska dagblaðið New York Times.

Myndin er ný tegund af áskorun fyrir leikkonuna 27 ára gömlu. Hún sló í gegn á Disney Channel og er best þekkt fyrir leik í sjónvarpsþáttunum Euphoria og í stórmyndaseríunum Spider-Man og Dune.
Hún er vel meðvituð um að Challengers sé prófsteinn á það hversu vel henni gengur sem aðalstjörnu í kvikmynd að lokka fólk í bíó. „Ég vildi gera þessa mynd því hún er frábær,“ segir hún. „Það er ekki eins og ég hafi setið inni í herbergi með eitthvað rosalegt plan og hugsað: „Ok, nú er komið að því að ég leiði fyrstu mynd mína sem aðalstjarnan.““

Challengers (2023)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn7.8
Rotten tomatoes einkunn 96%

Tennisleikarinn Tashi, sem nú hefur snúið sér að þjálfun, er búin að gera eiginmann sinn, Art, að heimsþekktum sigurvegara á mörgum risamótum. Eftir mörg töp í röð ákveður hún, til að koma Art aftur á sigurbraut, að skrá hann á áskorendamót þar sem mótspilarar eru mun ...

Blaðamaður New York Times hitti Zendaya og þá Josh O´ Connnor ( The Crown ), Mike Faist ( West Side Story ) og Guadagnino saman í spjalli á dögunum.

Þar segir O´Connor að eitt af því áhugaverða við að kynna myndina sé að heyra viðbrögð áhorfenda við persónunum. „Það fyrsta sem sumir sögðu var eitthvað eins og „Patrick er hræðilegur. Alveg skelfilegur,“ og ég sagði, „Bíddu aðeins!“ Ég held í alvöru að þau öll þrjú þarfnist hvers annars, en nálgast það oft á umdeilanlegan máta, en gerum við það ekki öll af og til? Ég held að þau séu öll indæl.“

Ekki vera alveg köld

Zendaya segir um sína persónu að það hefði verið hægt að gera hana að „alvöru t**“, en þau hafi ekki viljað að hún væri alveg köld. „Hvernig finnum við réttu blæbrigðin og gerum hana viðkvæma, brothætta. Ég held að hún sé um það bil að brotna saman en er að reyna að gera það ekki og halda sársaukanum inni. Áskorunin við persónuna var ekki endilega að réttlæta það sem þau gera, heldur að gera þau nógu mannleg til að finna til samlíðunar með ákvörðunum þeirra.“

Erótísk orka

Faist segir að þau þurfi svo öll þrjú að gefa eftir og þá hefst samtal við áhorfendur. „Þeir munu taka upplifunina með sér út úr bíósalnum og það eina sem við getum gert er að vinna okkar vinnu og undirbúning. Vonandi dugar það til að kveikja í bíógestum. Það er líka áhugavert að Art og Patrick eru ekki bara að eltast við Tashi. Það er líka ákveðin samkeppnisleg erótísk orka á milli þeirra tveggja.“