Týndu íslensku kvikmyndirnar – Hefur þú séð þær?

Ólíkt því sem margir halda, þá gerist það annað slagið að kvikmyndir hverfa nánast af yfirborði jarðar. Íslenskar kvikmyndir hafa til dæmis því miður ekki allar ratað á stafrænt form. Í þeim flokki eru misfrægar bíómyndir, en þær eiga það líklega sameiginlegt að ekki hefur gefist tækifæri eða fjármagn til þess að leyfa þeim að eiga líf út fyrir VHS-formið. Né heldur eru í boði endursýningar á RÚV eða sjóræningjaeintök. Þó aðgengið á myndunum sé takmarkað hefur þetta þó kynt undir vissan „költ“ staðal.

Það er gaman að rýna í hvaða íslenskar bíómyndir hafa nánast gufað upp, eða eru á góðri leið með að týnast.

Skoðum nú aðeins „tossalista“ þeirra íslensku kvikmynda sem fengu aldrei stafræna (aðallega DVD þá…) útgáfu og eru heldur ekki fáanlegar á streymum, eða sér í lagi veitunni IcelandicCinemaOnline. Athugið að listinn er ekki tæmandi.


Nei er ekkert svar (1995)

Megum við eiga von á löglegri – ef til vill hreinsaðri og gæðabættri – útgáfu af þessari tímamótamynd á næstu árum?

Við þessu er aðeins eitt svar ásættanlegt. Náttúrulega.

Fyrir óralöngu sáu sumir það sem gífurlegt fagnaðarefni að hér væri fyrsta íslenska kvikmyndin á ferð sem væri bönnuð börnum yngri en 16 ára. Tvær systur standa á tímamótum í lífinu. Önnur íhugar giftingu og barneignir en hina dreymir um að komast úr landi. Þegar þær óvart stela eiturlyfjasendingu frá útlenskum dópsölum, breytist lífið í einni andrá og eru þær systur þá komnar á æðisgenginn flótta með tryllta morðingja, dópsala og löggur á hælunum.

Myndin, sem kom út í lok árs 1995, var mjög umdeild á sínum tíma. Hún var gefin út á myndbandi eftir sýningar í bíó en hefur síðan þá verið nánast ófáanleg.


Á hjara veraldar (1983)

Á hjara veraldar er kvikmynd eftir Kristínu Jóhannesdóttur frá 1983 með þeim Þóru Friðriksdóttur, Helgu Jónsdóttur og Arnari Jónssyni í aðalhlutverkum.

Það hefur verið mjög erfitt að finna myndina til leigu eða til sölu undanfarið. Kvikmyndasafn Íslands varðveitir eintak af henni, en sýnir hana mjög sjaldan. Er eitthvað hægt að bæta úr því?
Vonum.


Blossi – 810551 (1997)

En ekki hvað?

Hörðustu aðdáendur íslensku kvikmyndarinnar Blossi – 810551 hafa lengi krafist þess að költ-myndin fræga fái stafræna dreifingu, í það minnsta á skjáleigum, og hefur stuðningshópur hennar vaxið töluvert á undanförnum árum. Eina leiðin til að nálgast myndina í þokkalegum gæðum, með löglegum hætti, virðist vera að reyna komast yfir VHS-spólu, vonandi óslitna, þó myndin hafi vissulega verið sýnd á RÚV fyrir örfáum árum og nokkrum sinnum á sérsýningum í Bíó Paradís.

Í gegnum árin hafa ýmsir Blossunnendur, Blossafíklar, Blossabossar og sams konar dyggur hópur stuðningsfólks, látið vel í sér heyra. Sem dæmi um samfélagsmiðlasíður með það að markmiði að tryggja að Blossinn deyi seint út, var stofnuð Facebook-síða fyrir áratug síðan sem nefnist Við krefjumst þess að stórverkið Blossi verði gefin út á stafrænu formi. Ýmis konar þræðir, umræður og greinar hafa verið ritaðar um mikilvægi kvikmyndarinnar sem var stolt framlag Íslands til Óskarsverðlauna árið 1998 – en lítið hefur bólað á útgáfu né fleira talsfólki sem er annt um Blossann.


Popp í Reykjavík (1998)

Popp í Reykjavík er heimildamynd um það sem var að gerast í íslenskri popptónlist sumarið 1998. 24 hljómsveitir og tónlistarmenn koma fram í myndinni, bæði í tali og tónum.

Forveri myndarinnar frá Friðriki Þór Friðrikssyni, Rokk í Reykjavík, hefur verið fáanleg á DVD í áraraðir, en Poppinu hefur alveg verið sópað undir teppið. Þó má finna hana á Sarpinum á RÚV, en aðeins fram til 1. júlí, þannig að það er um að gera er að drífa sig að kíkja á þetta stórskemmtilega barn síns tíma, um sinn tíma.

Leikstjóri er Ágúst Jakobsson, sem er ótvíræður töffari í bransanum og einn færasti kvikmyndatökumaður Íslands.

Vel á minnst…


Eldborg: Sönn íslensk útihátíð (2002)

Heimildarmynd frá árinu 2001 sem víða hefur verið leitað að. Myndin kemur úr smiðju Ágústs Jakobssonar og fjallar um ungmenni á séríslensku hópfyllerí á einni umtöluðustu útíhátíð seinni ára, Eldborg 2001.

Tónleikastemmningin er aldrei langt undan og koma flestar vinsælustu hljómsveitir þess tíma við sögu í þessari sögufrægu mynd. Fram koma m.a.: Nýdönsk, Stuðmenn, Geirfuglarnir, Skítamórall, Buttercup, Jet Black Joe, XXX Rottveiler hundar o.fl.

Þessa þarf svo sannarlega að grafa upp og gefa nýtt líf.


Húsið: Trúnaðarmál (1983)

Við Ásvallagötu 8 í miðbæ Reykjavíkur stendur hvítt, tæplega þrjú hundruð fermetra einbýlishús. Húsið var reist árið 1926. Það lifir í hjörtum margra kvikmyndaáhugamanna og vakti mikinn óhug hjá stórum hluta landsmanna á níunda áratugnum, en segja má að það hafi verið skærasta stjarnan í kvikmyndinni Húsið – Trúnaðarmál sem leikstýrt var af Agli Eðvarðssyni.

Kvikmyndin var gefin út árið 1983 og er fyrst íslenskra hrollvekja í flokki svonefndra „geiramynda“. Hrollur myndarinnar byggist á dulmögnuðu andrúmslofti, flöktandi skuggum og undarlegum draumum. Sagan segir frá Pétri og Björgu, ungu pari sem flytur inn í gamalt hús í Reykjavík. Fljótlega fara undarlegir hlutir að gerast.

Myndin sló í gegn og þegar talið var upp úr kössunum kom í ljós að 80 þúsund höfðu keypt sér miða. Eftir því sem á leið hefur verið erfitt að sækja eintök af myndinni. Þrátt fyrir gömlu vinsældirnar fylgdi hún ekki með í DVD-flórunni en var þó sýnd á RÚV um tíma, í endurbættum gæðum í þokkabót. Þetta er þá til.

Út með það!


Ingaló (1992)

Ingaló, kvikmynd eftir Ásdísi Thoroddsen, segir frá stúlku og hversdagslegu ævintýrum hennar. Ingaló (sem er eftirminnilega leikin af Sólveigu Arnarsdóttur) vinnur hjá föður sínum á trillu en þau feðginin eiga þó ekki skap saman. Eftir ball í þorpinu sem endar í slagsmálum milli þorpsbúa og áhafnar á aðkomuskipinu Matthildi ÍS 167, er Ingaló send til Reykjavíkur, en yngri bróðir hennar Sveinn, strýkur að heiman.

Ingaló staldrar þá stutt við í Reykjavík og á sér ástarævintýri með manni á fertugsaldri, Vilhjálmi. Sveinn hafði komist í pláss á Matthildi og nú er Ingaló ráðin sem kokkur á bátinn. Það fiskast illa og að lokum er haldið til hafnar. Í heimahöfn búa flestir í áhöfninni í niðurníddri verbúð. Ingaló uppgötvar að eigandi Matthildar og ,,kóngurinn“ í þorpinu er enginn annar en Vilhjálmur. Sjómennskan hafði ekki átt við Svein og hann varð fyrir stríðni um borð, en í verbúðinni verður hann fyrir algjörri niðurlægingu. Ingaló lendir í togstreitu, hún vill halda hlífiskildi yfir bróður sínum en dregst að Skúla, stýrimanninum á Matthildi. En Skúli hins vegar hefur augastað á fegurðardrottningu þorpsins. Villt partí í verbúðinni verður afdrifaríkt fyrir Inguló, Skúla og hitt fólkið. Skömmu síðar leggur Matthildur af stað í sína hinstu för.

Þessi frumraun Ásdísar í fullri lengd var sýnd við góðar viðtökur og var myndin tekin inn í keppnina Semaine de la critique á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Hlaut hún einnig aðalverðlaun á Norrænu kvikmyndahátíðinni í Rúðuborg (Festival du cinéma nordique de Rouen) og Sólveig Arnarsdóttir hlaut verðlaun sem besta leikkonan fyrir titilhlutverkið. Þá var kvikmyndin valin inn á sýningu í New Directors/New Films Festival í Museum of Modern Art og Lincoln Center í New York árið 1993.

En gott orðspor og betra orðspor virðist ekki hindra það að hin uppreisnargjarna Ingaló er enn svo gott sem týnd. Myndin er til stafrænt og bauð meira að segja leikstjóri myndarinnar upp á bíósýningar um land allt á tímapunkti. Þess ber að geta þó að Gjóla ehf gaf út fáein eintök á DVD en hefur lítið bólað á annarri stafrænni dreifingu síðan.


Villiljós (2001)

Ef þú, ágæti lesandi, manst eftir íslensku kvikmyndinni Villiljós, tilheyrir þú fámennum hópi. Myndin skiptist í fimm litlar sögur sem allar gerast í Reykjavík á sama tíma og segja frá lífi ólíkra einstaklinga.

Villiljós er frá árinu 2001 var tekin upp á mjög löngu tímabili með löngum hléum, en handritið skrifar Huldar Breiðfjörð (París norðursins, Undir trénu o.fl.) og köflunum er leikstýrt af Degi Kára Péturssyni, Ragnari Bragasyni, Ásgrími Sverrissyni, Ingu Lísu Middleton og Einari Guðlaugssyni. Ekki gekk vel fyrir myndina að finna sinn áhorfendahóp. Hún opnaði í sjötta sæti og fór beint undir radar flestra. Myndin átti við harða samkeppni að stríða í kvikmyndahúsum á þeim tíma. Lífið á VHS varð heldur ekki glæsilegt.

Viðbrögð áhorfenda og gagnrýnenda voru afar misjöfn. Sæbjörn Valdimarsson skrifaði jákvæðan dóm í Morgunblaðið, gaf myndinni þrjár og hálfa stjörnu og sagði hann púsluspil handritsins ganga upp. „Með hjálp fimm leikstjóra, sem ástæðulaust er að draga í dilka, þeir skila allir sínu vel, og rösklega það, eru hugmyndaríkir, hafa góð tök á leikurunum og keyra myndina áfram á réttu tempói. Sömuleiðis er leikhópurinn glimrandi góður, vel til fundin blanda ungra og eldri leikara. Púsluspilið gengur upp, Villiljós er fersk og hún er frumleg; fyndin, háðsk og dulítið alvarleg í senn. Full af táknum um lífið, dauðann, smáskeiðum af ástleysi og einmanaleika, stundum á mörkum hins yfirskilvitlega,“ sagði Sæbjörn.

Gunnar Smári Egilsson fjölmiðlamaður var ekki jafn hrifinn. Hann gaf myndinni eina stjörnu af fimm í DV á sínum tíma og sagði: „Táknin sem dreift er um myndina ná ekki að skjóta rótum í frásögninni; verða eins og ofhlaðnar neðanmálsgreinar. Uppbrot myndarinnar í fimm þætti sem tengjast óljóst innbyrðis virðist frekar ráðast af tísku en þörf. Myndin virkar eins og stílæfing; skólaverkefni í artrí-smartí-fartí-partí. Brýnið sverð ykkar, krakkar!“

Hvernig sem útkoman var eiga íslenskir bíóunnendur skilið að eiga möguleikann að sjá þessa költ-perlu, þó það væri ekki nema fyrir flottu notkunina á laginu Viðrar vel til loftárása frá Sigur Rós.

En leitið og þið munuð finna. Áhugasömum er bent á Villiljós á VOD-leigum Símans og Vodafone.


Aðrar illfáanlegar:

Bráðin (2001)
Einkalíf (1995)
Foxtrot (1988)
L7: Hrafnar, sóleyjar og myrra (2011)
Leyndardómar skýrslumálastofnunnar (2000)
Perlur og svín (1997)
Ryð (1990)
Stuttur frakki (1993)
Veiðiferðin (1980)
Ævintýri á norðurslóðum (1992)
Ævintýri Pappírs-Pésa (1990)

Veist þú um fleiri?
Láttu endilega í þér heyra!
Betur berast raddir en rödd.