Vinnur að nýrri Rocky mynd

Stórleikarinn Sylvester Stallone segir í nýju samtali við kvikmyndaritið Variety, að hann sé að vinna að nýrri Rocky kvikmynd, í samstarfi við Winkler framleiðslufyrirtækið og MGM ( sem eru meðeigendur að Rocky seríunni ). Myndin á að fjalla um kynni Rocky af ungum slagsmálahundi sem býr ólöglega í Bandaríkjunum.

„Við erum mjög spennt fyrir þessu,“ segir Winkler við Variety, og segir að samningar standi nú yfir við Stallone, um að skrifa handrit og leika aðalhlutverkið í myndinni.

Stallone segir í sama viðtali að í skoðun sé einnig að gera mynd um forsögu Rocky, og þá sem sjónvarpsþáttaröð fyrir einhverja streymisveituna.

Í viðtalinu segist Stallone, 73 ára, vera ósáttur við að eiga ekkert í Rocky, þrátt fyrir að þetta sé allt saman hans höfundarverk.

Þetta er í fyrsta skipti sem hann ræðir þessi mál opinberlega, segir Variety, en á þeim tíma sem hann gerði Rocky, árið 1976, var hann ungur og óreyndur og kveðst hafa samið af sér.

Myndin, sem Stallone skrifaði handrit að og lék aðalhlutverkið í, varð óvæntur smellur í miðasölunni, og dálæti gagnrýnenda einnig, og fékk 10 tilnefningar til Óskarsverðlauna, þar á meðal fyrir bestan leik Stallone í aðalhlutverkinu, og fyrir handritið. Myndin vann á endanum verðlaunin fyrir bestu mynd, leikstjórn og klippingu. Stallone varð á einni nóttu frægur um allan heim.

Í kjölfarið lék hann í nokkrum Rocky myndum í viðbót, sem og seríu af Rambo myndum. Auk þess lék hann í myndum eins og Rhinestone, Cobra, The Expendables og Creed.