Í BÍÓ
Madagascar: Escape 2 Africa mokaði inn rétt tæpum 6 milljónum króna fyrstu sýningarhelgina sína á Íslandi og sló því nýjustu Bond myndina, Quantum of Solace úr toppsætinu. Nýjasta mynd snillingsins Kevin Smith, Zack and Miri Make a Porno kemur ný inn í 3.sætið. Græna Ljósið frumsýndi Religulous sem skellir sér í 8.sætið, á meðan vestrinn Appaloosa með Ed Harris kemur ný í 7.sætið.
Pride and Glory og W. þjóta niður listann, og sitja í 9. og 11. sæti eftir aðeins 2 vikur í útgáfu.
Á DVD
Það kemur ekki á óvart að Mamma Mia fari efst á listann, enda skemmir ekki fyrir að singalong útgáfa fylgir venjulegri DVD útgáfu af myndinni. Orðið á götunni er að búðir hafi varla undan þegar kemur að því að sinna eftirspurn, og að DVD- og raftækjadeild Hagkaupa hafi verið óformlega breytt í Mamma Mia deild yfir síðastliðna helgi.
The Happening, Kung Fu Panda og Hellboy II: The Golden Army sitja í 3.-5. sæti yfir vinsælustu myndirnar á mynddiskaleigum Íslands í dag.
Í USA
Jólamyndin Four Christmases með Vince Vaughn og Reese Witherspoon er jólamyndin í ár að mati kanans, en myndin skellti sér í toppsætið í Bandaríkjunum og þénaði 46,7 milljónir dollara. Það verður spennandi að sjá hvort hún skili sínu þegar hún verður tekin til sýninga hér á Íslandi næstu helgi. Nýjasta mynd Gus Van Sant, Milk, með Sean Penn í aðalhlutverki situr í 10.sætinu með 1,87 milljónir dollara í kassanum, en um takmarkaða útgáfu er að ræða. Undirritaður vonast efitir því að Milk verði ein af gullmolum ársins.

