Murphy er þriðji þríburinn

Arnold Schwarzenegger sagði í pallborðsumræðum á South by Southwest tónlistar og kvikmyndahátíðinni í Austin í Texas á dögunum að enginn annar en grínleikarinn Eddie Murphy væri búinn að samþykkja að leika í Triplets, eða Þríburum, framhaldi myndarinnar Twins, eða Tvíburum, frá 1988, en þar léku þeir Schwarzenegger og Danny DeVito mjög svo ólíka tvíbura, sem hittust á ný eftir að hafa verið aðskildir á fæðingardeildinni.

Terminator leikarinn hafði áður upplýst að hann hefði áhuga á að fá Murphy í myndina.

Núna hefur Arnold, eins og fyrr sagði, staðfest að allir séu klárir í bátana, og að handritið sé sömuleiðis tilbúið.

Samkvæmt Deadline kvikmyndavefnum þá sagði Schwarzenegger í pallborðsumræðunum, spurður að því hvernig væri hægt að útskýra hve rosalega ólíkir þríburarnir yrðu, að „margt skrýtið gæti gerst við blöndun sæðisins.“

Ekkert er enn vitað um hvenær tökur gætu hafist, en kvikmyndin yrði sú fyrsta sem Murphy gerði eftir að hann lék í Mr. Church árið 2016.