Aðalleikarar
Leikstjórn
Handrit
Verulega slöpp og þreytt spennudrama sem minnir á köflum á einhverja útúrjaskaða sápuóperu. Greinilega þykir þessi mynd vera mjög góð en skemmtanagildi hennar fór alveg framhjá mér. Nokkur góð atriði eru þó til staðar en þau eru öll atriði sem Sarah Michelle Gellar leikur í en hún er kröftug í hlutverki sínu og yfirgnæfir alla aðra leikara í myndinni(Jafnvel Reese Witherspoon!). Ég var líka nokkuð sáttur með tónlistina,það eru þarna nokkur góð lög þó að ég hefði frekar viljað þetta soundtrack í að minnsta kosti tveggja og hálfrar stjörnu mynd. Annars fannst mér ekkert varið í þessa mynd,hún er innantóm og daufleg og bara hreinlega leiðinleg. Ég ætla þó að splæsa einni og hálfri stjörnu á Cruel intentions vegna áðurnefnda kosta og endirins sem er...ja,góður bara. Vond mynd sem endar skemmtilega. Pælið í því.
Þessar stjörnur gera mynd að veruleika en ekki er það allt, myndin þarf að fjalla um eitthvað skemmtilegt. Þessi mynd er ekki toppmynd eins og margir segja, hún er full af tilgangslausum klisjum en getur verið einstaklega góð. Ryan Philippe er fyndin og góður og náttúrulega bomburnar Sarah Michelle Gellar og Reese Witherspoon eru einstakar en eins og ég sagði er það bara ekki nóg. Ég gef myndinni eina stjörnu fyrir leikarahópinn og eina fyrir nokkuð margar einstaklega skemmtilegar senur.
Ef þið eruð í hæfilega illkvittnu skapi er gott að taka Cruel Intentions. Ég er sammála því sem sagt er hér að ofan, fyrrihlutinn var miklu betri en seinnihlutinn. Það var yndislegt að horfa á stjúpsystkinin leikin af Sarah Michelle Gellar og Ryan Phillipe kvelja fólk eins og þau gátu með sínar illu fyrirætlanir, og leggja á ráðin um hvernig hin saklausa mey leikin af Reese Witherspoon ætti að verða afmeyjuð. En í seinnihlutanum verður myndin dæmigerð Hollywood-della. Það hvernig persóna Ryan Phillipe breytist gjörsamlega frá því að vera vond yfir í að vera góð er ósannfærandi og minnir helst á Disney-mynd. Hver klisjan rekur aðra og myndin endar í vonbrigðum. Myndin fær tvær og hálfa stjörnu fyrir fyrrihlutann, en seinnihlutinn dregur hana töluvert niður. En það má þá alltaf slökkva þegar myndin fer að verða væmin...
Systkinin Sebastian (Ryan Phillipe) og Kathryn (Sarah Michelle Gellar) eru ríkir krakkar á Manhattan. Þau eru einnig samviskulaus kvikindi sem bæta sér upp sitt eigið innantóma líf með því að rústa eins mörgum lífum annarra og þau mögulega geta. Nýjasta áskorunin er sú að Sebastian fái hina siðprúðu Annette (Reese Witherspoon) en faðir hennar er skólastjóri menntaskólans sem Sebastian gengur í og hún hefur heitið því að vera hrein mey þangað til hún finnur þann eina rétta. Hann og Kathryn fara í veðmál. Ef að Sebastian nær ekki að táldraga hana fær Kathryn sportbílinn hans. Ef Sebastian vinnur fær hann að sofa hjá Kathryn. Langbesti hluti myndarinnar er fyrri helmingurinn. Þau tvö eru þar bæði eins andstyggileg og hugsast getur og er unun að því að horfa upp á skepnuskapinn hjá þeim báðum og virðist þetta þá vera stórskemmtileg biksvört kómedía. En þetta versnar í seinni helmingnum þegar myndin fer meira að skipta yfir í rómantíska gamanmynd og síðan í endann yfir í melódramatískt gamandrama à la Hollywood. Það sem reddar þá myndinni er að hún er skemmtilega leikin af þessum ungstirnum. Sarah Michelle Gellar og Reese Witherspoon eru báðar glæsilegar og einnig gera þær vel úr sínum karakterum en senuþjófurinn er samt Ryan Phillipe með sínum afar íróníska sjarma sem þessi óforbetranlegi kvennabósi. En sorglegt að endirinn þyrfti að vera svona slakur.
Það er óhætt að segja að þessi mynd hafi komið mér verulega á óvart. Ég átti von á einhverri unglingaþvælu en sú reyndist nú heldur betur ekki vera raunin. Illkvitnin í myndinni er raunar alveg unaðsleg en svo skýn sakleysið og góðmennskan annað slagið í gegn sem gerir það að verkum að áhorfandinn sveiflast milli sterkra andstæðra tilfinninga. Ég vil ekki segja of mikið um söguþráðinn svo ég eyðileggi ekki alla skemmtunina, eins og svo margir aðrir virðast hafa mikla þörf fyrir og segi einfaldlega: Sjón er sögu ríkari.
Um myndina
Leikstjórn
Handrit
Kostaði
$10.500.000
Tekjur
$76.347.426
Vefsíða:
Aldur USA:
R
Frumsýnd á Íslandi:
28. maí 1999
VHS:
24. nóvember 1999