Vaughn flytur sig í líkama unglingsstúlku

Líkamsskiptakvikmyndir eru sérstök grein innan kvikmyndalistarinnar, og má þar nefna myndir eins og Freaky Friday, Vice Versa, 17 Again og Nine Lives svo aðeins fáeinar séu nefndar. Og nú er von á einni nýrri úr þessari áttinni.

Vaughn sköllóttur fyrir framan bandaríska fánann.

Vefsíðan birthmoviesdeath segir frá því, og hefur fréttirnar reyndar frá Deadline vefnum, að Vince Vaughn hafi ráðið sig í líkams-skiptamynd sem Chris Landon leikstýrir, leikstjóri Happy Death Day. Myndin ku einnig vera hrollvekja, en hefur ekki enn fengið nafn.

Í kvikmyndinni leikur Vaughn raðmorðingja sem verður fyrir því að vitund hans flyst yfir í líkama unglingsstúlku, sem Big Little Lies leikkonan Kathryn Newton leikur. Vaughn hefur aðeins einn sólarhring til að snúa við í sinn eigin líkama, að öðru kosti eru skiptin varanleg.

Í frétt Deadline af málinu segir einnig að verkefnið sé á forræði Blumhouse kvikmyndaversins, sem hefur í gegnum tíðina gert ýmsar vinsælar hrollvekjur, eins og Get Out, Halloween og fyrrnefnda Happy Death Day.

Enn er ekki vitað hvenær tökur hefjast , né heldur hvenær frumsýningardagur verður.