DeVito spilar Jumanji um næstu jól

Ráðning leikara í framhald ævintýra – gamanmyndarinnar Jumanji: Welcome to the Jungle, sem frumsýnd var árið 2017 og naut mikilla vinsælda, er nú að komast á góðan skrið. Variety kvikmyndaritið greinir frá því að enginn annar en Twins leikarinn Danny DeVito, sé nú orðinn hluti af leikhóp myndarinnar. Á dögunum var sömuleiðis greint frá því að senuþjófurinn úr gamanmyndinni skemmtilegu Crazy Rich Asians, Awkwafina, væri komin um borð í framhaldsmyndina.

Í nýju myndinni verður tölvuleikurinn Jumanji, sem í upphaflegu myndinni frá 1995 var borðspil, áfram í aðalhlutverki, en sagan fjallar um unglinga sem breytast í fullorðna manngervinga ( avatar ).

Aðalleikarar fyrstu myndarinnar, Dwayne Johnson, Kevin Hart, Karen Gillan og Jack Black, snúa öll aftur. Handritið skrifar Jake Kasdan, ásamt Jeff Pinkner og Scott Rosenberg, en Kasdan leikstýrir myndinni jafnframt.

“Galdurinn við Jumanji, er spurningin um hver breytist í hvern. Og hugmyndin að fá Danny DeVito í leikhópinn var of ómótstæðileg, og eitthvað sem við vissum að við vildum bjóða áhorfendum upp á um næstu jól. Dwanta Claus elskar alla,” sagði Dwayne Johnson í Variety um ráðninguna.

Eins og sagði hér á undan sló Jumanji: Welcome to the Jungle í gegn á sínum tíma, en tekjur myndarinnar af sýningum um allan heim námu 962 milljónum bandaríkjadala.

Kvikmyndin hefur enn ekki fengið nafn eða söguþráð, en frumsýning er áætluð 13. desember á þessu ári.

Næst sjáum við DeVito í Dumbo, sem kemur í bíó 29. mars nk.