Djöfulóð Annabelle 3 hrellir okkur á næsta ári

Framhaldsmyndir eru sívinsælar í draumaborginni Hollywood eins og toppmynd nýliðinnar helgar, Avengers: Infinity War, ber glöggt vitni um. Hrollvekjuseríur hafa einnig notið mikilla vinsælda um árabil, og þar má strax nefna hinn svokallaða Conjuring heim – þ.e. Conjuring hrollvekjurnar og hliðarmyndir þeirra.

Um daginn sögðum við frá nýju plakati fyrir The Nun, sem væntanleg er síðar á árinu, en nú berast fregnir af þriðju Annabelle kvikmyndinni, um samnefnda djöfladúkku, í leikstjórn Gary Dauberman, sem einnig skrifar handritið.

Fyrsta myndin, Annabelle, var frumsýnd árið 2014, en Annabelle: Creation fylgdi í kjölfarið á síðasta ári, en þar var rakinn uppruni hinnar óhugnanlegu brúðu. Enn er óvíst hvaða hluta “lífs” Annabelle, nýja myndin mun fjalla um, en stefnt er að frumsýningu 3. Júlí árið 2019.

Hrollvekjur eru greinilega ær og kýr Dauberman, því auk þess að skrifa handrit Conjuring myndanna, og The Nun, þá vinnur hann einnig að framahaldi af trúðahrollinum It, It: Chapter 2, sem kemur líka í bíó á næsta ári, nánar tiltekið í september það ár.