Sáu 72 kvikmyndir í bíó á einu ári – Topplisti

Guðjón Ingi Sigurðsson og Gabríel Daði Vignisson, Gabbi, fara oftar í bíó en meðalmaðurinn. Um hverja helgi fara þeir í svokallað „Sunnudagsbíó“. Undirbúningurinn hefst yfirleitt í miðri viku þegar sýningartímarnir á kvikmyndir.is eru grandskoðaðir. „Við Gabbi kynntust árið 2016 í gegnum sameiginlega vini. Árið 2017 byrjuðum við á þessum bíóferðum. Okkur vantaði eitthvað skemmtilegt að gera. Svo vatt þetta upp á sig og varð að föstum lið,“ segir Guðjón í samtali við Kvikmyndir.is.

Guðjón rekur líkamsræktarstöðina Train Station í Dugguvogi en Gabbi rekur pítsustaðinn Flatbökuna í Bæjarlind í Kópavogi.

Gabbi og Guðjón í Train Station í Dugguvogi.

„Um þetta leiti fórum við saman til Flórída í Bandaríkjunum og þar tókum við einmitt sunnudagsbíó. Við fórum í Unversal Studios skemmtigarðinn og sáum þar The Mummy með Tom Cruise. Uppfrá þessu höfum við verið í bíó nánast á hverjum einasta sunnudegi.“

Heldur tölfræði

Eins og gefur að skilja hafa þeir félagar barið ófáar myndirnar augum á þessum tíma. Guðjón segir að Gabbi hafi haldið tölfræði allan tímann. Þeir gefi meira að segja kvikmyndum einkunn og búi til topplista. Hann má sjá hér í lok greinarinnar. Efst á þeim lista er bandaríska Óskarsverðlaunakvikmyndin Three Billboards Outside Ebbing, Missouri.

Spurður um helstu venjur þegar í bíósalinn er komið segir Guðjón að hann sjálfur sé lítill popp og kók maður en leyfi sér stundum að fara á nammibarinn. „Maður sparar sér sælgætið í miðri viku og fær sér frekar í bíóinu.“

Í VIP á spari

Spurður um hvort þeir sæki í VIP salina segir Guðjón að það sé gert á spari. Til dæmis hafi þeir séð Avatar: The Way of Water í VIP. „Annars reynir maður að taka AXL salinn í Laugarásbíói eða sal 1 í Egilshöllinni. Við höfum fundið okkur góð sæti í þessum sölum sem við förum alltaf í.  Ég vil hinsvegar ekki upplýsa um hvaða sæti það eru – ég vil ekki eiga á hættu að missa bestu sætin!“

Þeir sem fara um hverja helgi í bíó eins og þeir Guðjón og Gabbi ná að sjá flestar myndir sem þangað rata. „Já, við sjáum næstum allt. Á þessu ári vantar okkur eina mynd. Við eigum eftir að sjá Babylon.“

Spurður að því hvort þeir séu alætur á myndir segir Guðjón að menn eins og þeir þurfi að vera það. „Maður þarf að vera opinn fyrir flest öllu. Við erum minnst í barnamyndunum auðvitað, en heilt yfir sjáum við allt, spennu, drama, gaman, osfrv. Við erum spenntastir fyrir því sem er nýjast og ferskast á hverjum tíma. Og ef það er eitthvað sérstakt í gangi eins og tilnefndar Óskarsverðlaunamyndir, þá reynir maður að taka aukasýningar, jafnvel í miðri viku, til að missa ekki af þeim.“

2018 besta árið

Guðjón segir að besta bíómyndaár þeirra félaga hafi verið 2018. „Það ár sáum við 72 kvikmyndir, eða 2,5 myndir á viku. Það er líka skemmtilegasta bíóárið til þessa. Þá voru einmitt tvær af þeim bestu sem við höfum séð saman frumsýndar,  Three Billboards Outside Ebbing, Missouri og The Phantom Thread. Mér finnst Three Billboards enn svo góð að ég hef horft á hana tvisvar til viðbótar.“

Frances McDormand í Three Billboards Outside Ebbing, Missouri.

Guðjón rifjar upp bíóferðina þegar þeir Gabbi sáu kvikmyndina góðu. „Við tókum hana í Háskólabíói. Það voru bara nokkrar sýningar í boði. Við ætluðum í raun ekki að sjá hana, en gripum hana á miðvikudegi eða fimmtudegi. Þetta var skyndiákvörðun sem ég sé ekki eftir.“

Þegar Covid-19 faraldurinn skall á með sínum víðtæku samkomutakmörkunum setti það strik í reikning bíóáhugamanna eins og þeirra Guðjóns og Gabba. „Við brugðumst við því með því að hreiðra um okkur í sófanum heima hjá Gabba. Hann keypti sér nýtt heimabíó og var með fínasta sjónvarp fyrir.  Það var hlaðið í fleiri bíókvöld en vanalega. Við tókum til dæmis allan Marvel katalóginn, 23 myndir.“

The Menu best í fyrra

Spurður um bestu myndir ársins 2022 nefnir Guðjón Elvis og Black Phone, sem komið hafi á óvart. „Svo var The Menu mjög góð og kom líka skemmtilega á óvart. Maður vissi ekkert hvað maður var að fara að sjá. Ég held ég fullyrði bara hér og nú að The Menu hafi verið besta mynd síðasta árs,“ segir Guðjón að lokum.

Sjáðu topp tíu lista Guðjóns og Gabba frá 2018 – 2023 hér fyrir neðan – frá 1 – 10:

Three Billboards Outside Ebbing, Missouri (2017)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn8.1
Rotten tomatoes einkunn 90%
The Movie db einkunn8/10

Sjö mánuðum eftir að dóttir hennar var myrt þrýtur Mildred Hayes þolinmæðina og grípur til sinna ráða til að fá lögreglustjórann Bill Willoughby og menn hans í smábænum Ebbing í Missouri til að rannsaka málið og finna morðingjann. Tekst það eða býr eitthvað meira að ...

Tvenn Óskarsverðlaun, McDormand og Rockwell. Tilnefnd til sjö óskara. Golden Globe sem besta dramamynd og McDormand og Rockwell einnig verðlaunuð, sem og handritið. Besta mynd og besta handrit á BAFTA og Rockwell McDormand bæði verðlaunuð.

Parasite (2019)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn8.5
The Movie db einkunn9/10

Myndin fjallar um bláfátæka fjölskyldu í kóreskri borg en einn daginn breytist allt þegar sonurinn fær vinnu við að kenna unglingsstúlku ríkra hjóna....

Vinningshafi Gullpálmans á Cannes 2019. Vann fern Óskarsverðlaun, besta mynd, handrit, leikstjórn, og besta erlenda mynd.

The Menu (2022)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn7.2
Rotten tomatoes einkunn 88%

Ungt par fer á fjarlæga eyju til að snæða þar á rándýrum veitingastað þar sem sem matreiðslumaðurinn undirbýr glæsilega máltíð, með nokkrum óvæntum og yfirgengilegum uppákomum....

Green Book (2018)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn8.2
Rotten tomatoes einkunn 77%
The Movie db einkunn8/10

Green Book segir frá tónleikaferðalagi djasspíanistans Dons Shirley og bílstjóra hans og lífvarðar Tonys Lip um Suðurríki Bandaríkjanna árið 1964, en ferðalaginu fylgdi mikil áhætta fyrir Don vegna fordóma margra Suðurríkjabúa á þessum tíma gagnvart fólki af afrískum ...

Óskarsverðlaun sem besta mynd ársins, besta handrit og besti meðleikur Mahershala Ali. Vann þrenn Golden Globe verðlaun. Valin besta mynd í flokki söngva- og gamanmynda.

Joker (2019)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn8.4
Rotten tomatoes einkunn 68%
The Movie db einkunn8/10

Upprunasaga Arthurs Fleck, trúðsins og misheppnaða uppistandarans sem býr við kröpp kjör hjá aldraðri móður sinni. Mótlætið í lífinu breytir honum smám saman í stórglæpamanninn síhlæjandi, Joker, sem eins og flestir vita varð síðar að einum helsta andstæðingi Bruce ...

Fékk tvenn Óskarsverðlaun. Joaquin Phoenix fyrir leik og Hildur Guðnadóttir fyrir tónlist. Tilnefnd alls til 11 Óskara. Fékk Gullna ljónið í Feneyjum. Hildur fékk Golden Globe og BAFTA fyrir tónlistina og Joaquin Phoenix fékk Golden Globe fyrir leik í aða

Phantom Thread (2017)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi

Phantom Thread gerist í London í kringum 1960 þar sem við kynnumst klæðskeranum Reynolds Woodcock sem hefur sérhæft sig í viðskiptum við hástéttina í borginni og gengið vel. Reynolds er einstaklega agaður maður og formfastur sem fylgir sömu daglegu rútínunni út í æsar og hefur...

Sex Óskarstilnefningar fyrir bestan leik í aðalhlutverki karla, besta leik í aukahlutverki kvenna, fyrir leikstjórn, tónlist og búninga og vann fyrir búningahönnun. Tilnefnd til tvennra Golden Globe-verðlauna og fernra BAFTA-verðlauna

Jojo Rabbit (2019)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn7.9
Rotten tomatoes einkunn 80%
The Movie db einkunn8/10

Jojo er tíu ára drengur í ungliðahreyfingu Adolfs Hitlers, svonefndri Hitlersæsku, þar sem ungdóminum er m.a. kennt að meðhöndla vopn og að gyðingar séu rót alls ills. Þegar Jojo, sem á sér ímyndaðan vin að nafni Adolf, uppgötvar dag einn að móðir hans hefur falið ...

Óskarsverðlaun fyrir handrit eftir áður útgefnu efni. Alls sex Óskarstilnefningar. Hlaut áhorfendaverðlaunin á Toronto-kvikmyndahátíðinni. Tilnefnd til tvennra Golden Globe-verðlauna.

The Whale (2022)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn7.6
Rotten tomatoes einkunn 64%

Feiminn enskukennari sem jafnframt er offitusjúklingur reynir að endurnýja kynnin við unglingsdóttur sína....

Brendan Fraser fékk Óskarsverðlaun fyrir leik. Tilnefnd til þriggja Óskarsverðlauna. Ýmsar viðurkenningar á kvikmyndahátíðinni í Cannes, þar á meðal valin besta erlenda kvikmynd. Fimm BAFTA tilnefningar.

1917 (2019)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn8.2
Rotten tomatoes einkunn 88%
The Movie db einkunn8/10

1917 gerist í fyrri heimsstyrjöldinni, nánar tiltekið í NorðurFrakklandi vorið 1917, þegar tveimur breskum hermönnum, Schofield og Blake, er falið að koma þeim áríðandi skilaboðum til 1600-manna herdeildar sem komin er að víglínu Þjóðverja að hún sé um það bil að fara að...

Þrenn Óskarsverðlaun. Kvikmyndataka, tæknibrellur og hljóðvinnsla. Vann þrenn Golden Globe verðlaun, sem besta mynd, besta leikstjórn og besta tónlist. Tilnefnd til tíu Óskarsverðlauna.

Elvis (2022)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn7.3
Rotten tomatoes einkunn 77%
The Movie db einkunn8/10

Mynd um líf og feril hins goðsagnakennda rokktónlistarmanns Elvis Presley, séð í gegnum flókið samband hans við umboðsmanninn Colonel Tom Parker yfir 20 ára tímabil. Fjallað er um feril tónlistarmannsins allt frá því hann slær í gegn og að risi hans til frægðar og frama ...

Tilnefnd til átta Óskarsverðlauna, sem besta mynd, Aust­in Butler fyrir leik í aðalhlutverki, kvikmyndataka, búningahönnun, hljóð, framleiðsluhönnun, klipping og förðun og hár.