Thor og öskrandi geitur á tekjutrippi

Thor: Love and Thunder er vinsælasta kvikmynd heims um þessar mundir og situr hún meðal annars á toppi íslenska bíóaðsóknarlistans eins og við höfum áður sagt frá hér á síðunni.

Samkvæmt Forbes þá virðast tekjur myndarinnar ætla að verða um 187 milljónir bandaríkjadala í Bandaríkjunum vegna sýninga fyrstu vikunnar, eða 26 milljarðar íslenskra króna, en myndin var frumsýnd um síðustu helgi.

Minna en Ant-Man

Það er samkvæmt Forbes aðeins lakari árangur en hjá öðrum Marvel myndum sem frumsýndar hafa verið um mitt sumar í Bandaríkjunum (Ant-Man, Spider-Man: Homecoming, Ant-Man and the Wasp og Black Widow). En hvað þýðir það spyr Forbes? Kannski er þetta vesen, en amk. er þetta mun skárra en hjá Eternals sem var með 91 milljón dala í tekjur fyrstu vikuna eftir 71 milljón dala frumsýningarhelgi.

Thor gefur góð ráð.

Myndin hefur verið að fá ágætar viðtökur, þó ekki séu allir á sama máli, frekar en venjulega. Það truflar suma sá orðrómur að myndin, sem Taika Waititi leikstýrir, verði komin á Disney+ eftir 45 daga, en það vinnur með henni að ekki er von á annarri barnvænni ofurhetjustórmynd í bíó fyrr en Black Adam kemur 21. október, og því líklegt að menn noti tækifæri nú og fari með alla fjölskylduna í bíó.

Aðrir kandidatar

Blaðamaður Forbes útilokar þó ekki, líklega meira í gríni en alvöru, að Nope eftir Jordan Peele, Bullet Train eftir David Leitch eða Don´t Worry Darling eftir Olivia Wilde, verði fjölskylduvænar með afbrigðum og keppi þar með við Thor: Love and Thunder um áhorfendur.

Tekjur myndarinnar, sem er með þeim Chris Hemsworth, Natalie Portman, Christian Bale og Tessa Thompson í aðalhlutverkum, samtals um heim allan eru nú komnar í um 400 milljónir dala, eða 55 milljarða króna.

Mogginn gefur þrjár stjörnur

Gagnrýnandi Morgunblaðsins gefur myndinni þrjár stjörnur af fimm mögulegum í grein undir yfirskriftinni Mikil ást en minni þruma, og vísar þar beint til heitis myndarinnar.

Hann hvetur aðdáendur Marvel og Þórs til að sjá myndina enda sé hún augnayndi.

„Og mörg atriði í myndinni eru þannig, furðuleg en þó fyndin og þá einkum vegna þess hversu fáránleg þau eru. Geitur sem öskra eins og menn, hvað eftir annað, falla í þann flokk, svo eitt dæmi sé tekið og ástarsaga Þórs og Foster veitir myndinni nauðsynlega hlýju og mennsku, ef hægt er að tala um mennsku í kvikmynd um þrumuguð sem flakkar milli pláneta.

Sú ákvörðun að skella inn í söguna baráttu Foster við krabbamein og láta hana vera dauðvona er hins vegar stórfurðuleg og alltof mikið drama fyrir allan fáránleikann og flippið,“ segir Helgi meðal annars.

Flott svarthvítt atriði

Þá segir hann svarthvítt atriði í seinni hlutanum, þar sem Gorr berst við Þór, Foster og valkyrjuna, með þeim flottari sem sést hafa í Marvel-mynd. „Og ekki sakar að þrumandi smellir rokkaranna í Guns ‘n Roses fá að hljóma reglulega undir öllum hasarnum,“ segir Helgi einnig.