Mulan lifnar við á fyrstu ljósmynd

Bandaríska afþreyingarfyrirtækið Disney hefur nú tilkynnt að tökur séu hafnar á leikinni mynd sinni um Mulan, og af því tilefni birt fyrstu ljósmyndina af kínversku leikkonunni Liu Yifei í titilhlutverkinu.

Á myndinni, sem birt var á samskiptavefnum Twitter, sést Yifei, sem einnig gengur undir nafninu Crystal Liu, bregða sverði á loft með ógnandi hætti.

Leikstjóri Mulan er Niki Caro, en kvikmyndin er væntanleg í bíóhús hér á Íslandi 27. mars 2020.

Tökur kvikmyndarinnar munu fara fram í Kína og í Nýja Sjálandi. Á meðal annarra leikenda í myndinni verða Gong Li (Memoirs of a Geisha), Jet Li (Hero), Donnie Yen (Rogue One), Utkarsh Ambudkar (Pitch Perfect) og Jason Scott Lee (Dragon: The Bruce Lee Story).

Mulan, rétt eins og upprunalega teiknimyndin frá árinu 1998 sem var með Eddie Murphy í einu aðalhlutverkanna, er kínversk þjóðsaga um unga stríðshetju sem dulbýr sig sem karlmann.