Náðu í appið
Bönnuð innan 9 áraMyndin getur valdið ótta hjá eða er ógnvekjandi fyrir ung börn

Race to Witch Mountain 2009

Frumsýnd: 20. mars 2009

Leigubílstjóri lendir í yfirnáttúrulegu kapphlaupi til að bjarga heiminum

98 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 42% Critics
The Movies database einkunn 52
/100

Í mörg ár hafa undarlegar sögur af ótrúlegum fyrirbærum borist frá leynilegum stað í miðri Nevada eyðimörkinni. Staðurinn er kallaður Witch Mountain, og þegar leigubílstjóri (Dwayne 'The Rock' Johnson) fær tvo unglinga með yfirnáttúrulega hæfileika í bílinn sinn þá fer af stað ævintýraleg atburðarás sem enginn getur útskýrt. Í ljós kemur að unglingarnir... Lesa meira

Í mörg ár hafa undarlegar sögur af ótrúlegum fyrirbærum borist frá leynilegum stað í miðri Nevada eyðimörkinni. Staðurinn er kallaður Witch Mountain, og þegar leigubílstjóri (Dwayne 'The Rock' Johnson) fær tvo unglinga með yfirnáttúrulega hæfileika í bílinn sinn þá fer af stað ævintýraleg atburðarás sem enginn getur útskýrt. Í ljós kemur að unglingarnir eru í raun geimverur sem hafa brotlent skipi sínu á Witch Mountain, og ef þeim tekst ekki að bjarga því í tæka tíð munu geimverur ráðast á jörðina! Hefst þá eltingaleikur þar sem ríkisstjórnin, mafíuforingjar og jafnvel geimverur reyna að stöðva þau.... minna

Aðalleikarar

Beint af Disney-færibandinu
Mér finnst ekki ólíklegt að þeir sem eru yfir 12 ára sjái hversu dæmigerð þessi mynd er, og fylgir hún svo sterkt á eftir Disney-reglubókinni að það er nákvæmlega ekkert pláss eftir fyrir nýjungar. Auðvitað pæla yngstu áhorfendur ekkert í slíku, enda held ég að þeir eigi eftir að njóta myndarinnar afar vel. Race to Witch Mountain er hraðskreið og einföld ræma þar sem ávallt er stutt í hasar og háværa eltingarleiki, sem er fínt miðað við að börn eiga oft erfitt með að halda athygli við skjáinn nema það sé nóg að gerast.

En þó svo að þessi mynd virki vel á markhópinn sinn, þá er ég öruggur um að krakkarnir vaxi upp úr því að fíla myndina með aldrinum, sem gerir hana að heldur misheppnaðri fjölskyldumynd. Kannski ekki leiðinlegri, en svo fjandi ómerkilegri að manni gæti ekki verið meira sama. Það vita líka flestir að góðar fjölskyldumyndir eru þær sem tryggja gott skemmtanagildi handa fólki á ÖLLUM aldri.

Race to Witch Mountain virkaði aldrei á mig sem meira en bara þreytt barnamynd. Myndin er ekki vitund fyndin, spennandi eða eitthvað sérlega skemmtileg. Hún er reyndar vel unnin í brelludeildinni, en annars nær það ekki mikið lengra. Handritið er eins hefðbundið og Disney-ævintýri gerast og það er varla ein sena sem ekki fylgir uppskrift að einhverju leyti. Klisjur finnast nánast alls staðar, allt frá einhliða illmenninu til ólíklegu hetjunnar og eltingarleikjanna o.s.frv. Mér finnst líka furðulegt að hér skuli vera um endurgerð að ræða, og þá svona merkilega ófrumlega. Hvenær ætlar Disney að læra að taka oftar áhættur? Læra þeir ekki neitt af Pixar-teiknimyndunum?!

Það er í rauninni ósköp lítið sem hægt er að segja um mynd sem maður hefur séð margoft áður, nema bara með öðruvísi grunnplotti og allt öðrum leikurum. Mig langar líka að geta haft jákvæðari hluti að segja um Dwayne Johnson, sem yfirleitt hefur mikla útgeislun á skjánum. Málið er bara að hann virðist ekki vera að gera neitt annað en að vinna fyrir kaupi sínu, svo hann leggur áberandi minna á sig en venjulega. Hann gerir bara nákvæmlega það sem handritið ætlast til af honum og finnur maður aldrei fyrir því að hann sé að njóta sín e-ð í hlutverkinu.

Fyrir alla fjölskylduna er margfalt betra leikið efni í boði frá Disney ef leitað er nógu vandlega. En ef þetta er einungis spurning um að finna góða barnapíu handa krökkunum, þá ætti Race to Witch Mountain alveg að duga. Ég hef samt persónulega engan áhuga að heimsækja þetta fjall aftur, og sama gildir um litla krakkann í mér.

4/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn