Fínasta formúlumynd í löngum myndabálki

Í stuttu máli er „Creed II“ góð viðbót í Rocky myndabálkinn. Formúlan heldur sér og farið er vel með klassísk þemu eins og perónulega sigra og uppreisn.

Adonis Creed (Michael B. Jordan) hefur komið sér vel fyrir í heimi hnefaleika. Hann er trúlofaður sinni heittelskuðu Bianca (Tessa Thompson),  er með erfingja á leiðinni og heldur góðum tengslum við þjálfara sinn Rocky Balboa (Sylvester Stallone).

Svo kemur upp úr þurru áskorun frá rússnesku bardagamaskínunni Viktor Drago (Florian Munteanu) en sá er þjálfaður af föður sínum Ivan (Dolph Lundgren) en bæði Adonis og Rocky þekkja vel til hans. Fyrir rúmum þrem áratugum mættust Ivan og faðir Adonis, Apollo Creed, í hringnum og bardaganum lyktaði með dauða Apollo. Rocky fór í kjölfarið í hringinn með Ivan á eigin heimavelli í Rússlandi og sigraði vöðvatröllið í mögnuðum bardaga.

Ivan á nú harma að hefna og vill ná fram uppgjöri og uppreisn í gegnum son sinn með því að sigra erfingja Apollo. Adonis tekur áskoruninni en Rocky vill halda sinni fjarlægð.

Það kemur ekki á óvart að Stallone er með puttana í handritinu en leikarinn er einkar lunkinn við að finna hjartað í efnivið og teygja meira úr því en nokkur taldi mögulegt. “Rocky IV” (1985) var alfarið sköpun Stallones þar sem hann sá bæði um handrit og leikstjórn og þar sauð hann saman dramatísk endalok Apollo Creed og kynnti til sögunnar nær óstöðvandi andstæðinginn Ivan. Ivan, í ógleymanlegri túlkun sænska leikarans Lundgren, var óttalega einsleitur andstæðingur og gerður táknrænn fyrir hið grimma veldi Sovétríkjanna á sínum tíma en Rocky endaði í hringnum umvafður bandaríska fánanum predikandi til rússneska lýðsins um gildi þess að sýna umburðarlyndi og mátt breytinga. Og lýðurinn vitaskuld hyllti Rocky sem þjóðhetju.

Stallone dustaði svo rykið af efniviðnum árið 2006 og kynnti Rocky á ný til sögunnar sem gamla hetju sem enn átti eftir að vinna úr fortíðardraugum. Það var djarfur leikur hjá honum þar sem flestir töldu ólíklegt að Rocky ætti enn upp á pallborðið hjá áhorfendum, enda búið að mjólka formúluna all verulega með fimm myndum á þeim tímapunkti (Rocky V kom út árið 1990). En kjarninn í persónunni, og góðu myndunum í seríunni, er persónulegir sigrar og þeir birtast í ýmsum myndum. “Creed” (2015) fann leið til að halda þemanu gangandi hjá nýrri titilpersónu og halda á lífi myndabálki sem hófst fyrir rúmum fjórum áratugum síðan. Sú mynd var í raun hálfgerð endurtekning á frummyndinni og “Creed II” blandar saman því helsta sem Rocky gekk í gegnum í “Rocky II” (1979) og “Rocky III” (1982) með því að grafa upp atburðarás og persónur fjórðu myndarinnar.

Uppreisn er þemað hér og Adonis kemst að því að sigrar í hringnum og utan hans eru mikil þrautarganga og einbeita þarf sér á það sem skiptir máli. En trompið hér er án efa viðbót rússnesku feðganna og markmið Ivans að ná upp virðingu og upphefð á Drago nafninu eftir tapið á móti Rocky sem setti ljótan svip á alla framtíð hans í kjölfarið. Ferðalag feðganna er ekki síður áhrifamikið og Lundgren, sem rýni hefur ávallt þótt vera eðal leikari, gerir vel í hlutverki sínu og gerir Ivan að fjölþættri persónu sem á enn eftir að læra mikilvæga lífslexíu.

“Creed II” er formúlumynd út í gegn með klassískt þema sem er vel farið með. Stallone sjálfur leikstýrði fimm myndum í Rocky seríunni og hann kunni að koma öllu til skila á hnitmiðuðum tíma. Leikstjórinn hér, Steven Caple Jr., gerir vel einnig en er helst til of rólegur í tíðinni og áhorfandinn finnur ágætlega fyrir lengdinni sérstaklega í ljósi þess hve fyrirsjáanlegt allt er hér. Allir leikarar standa fyrir sínu og áðurnefndur Lundgren er senuþjófurinn, tónlist og myndataka til fyrirmyndar og bardagasenurnar eru kröftugar.