Á mánudaginn fyrir viku sló Avatar tekjumet Titanic á heimsvísu, þökk sé ótrúlegri aðsókn utan Bandaríkjanna. Nú styttist óðum í að bandaríska tekjumet Titanic falli, þar sem Avatar vantar rétt rúmar 5 milljónir dollara í að slá það eftir helgina.
Tvær nýjar myndir, gamanmyndin When in Rome og spennumyndin Edge of Darkness, sem státaði Mel Gibson í fyrsta almennilega kvikmyndahlutverki sínu í rúm 7 ár, voru frumsýndar á landsvísu vestra, en komust ekki nálægt því að ógna Avatar. Raunar tóku geimverurnar hans James Cameron inn meiri pening en þessar tvær myndir samanlagt!
Avatar tók inn 30 milljónir dollara, og minnkaði aðsókn aðeins um 14 prósent milli helga, sem dugði henni til að komast í 594 milljónir samanlagt í Bandaríkjunum, ná toppsætinu sjöundu helgina í röð og setja met yfir stærstu sjöundu helgi allra tíma. Á miðvikudag eða fimmtudag mun myndin svo fara yfir 600 milljón dollara markið og taka þar með tekjutitilinn af Titanic fyrir fullt og allt.
Edge of Darkness tók inn 17 milljónir á meðan When in Rome tók inn um 12 milljónir. Virðingarverðar tölur, en fóru ekki fram úr neinum væntingum.
Gamanmyndin Tooth Fairy með Dwayne Johnson hélt sér furðuvel í formi milli helga og hékk í fjórða sætinu með 10 millur og minnkaði aðsókn aðeins um 28 prósent milli helga á hana.
Í næstu sæti röðuðu sér svo myndirnar The Book of Eli, Legion, The Lovely Bones, Sherlock Holmes (sem er við það að rjúfa 200 milljóna múrinn), Alvin and the Chipmunks: The Squeakquel og It’s Complicated.
Nú stefnir því allt í að eina metið sem standi óhreyft eftir þeysireið Avatar í gegnum bíóhús heimsins, sé miðasölumetið sem Gone with the Wind á, en til þess að ná því þyrfti Avatar, sem situr nú í 21. sæti þess lista, að taka inn 1.500 milljónir dollara í Bandaríkjunum. Það skal þó tekið fram að flestar myndirnar á toppi þess lista eru frá því fyrir 1980, þegar framboð á kvikmyndum var ekki nærri því jafnmikið og aðsókn dreifðist því á færri myndir.
Um næstu helgi munu rómantíska dramað Dear John og hasarmyndin From Paris with Love gera sitt besta til að steypa Avatar af stóli. Haldið þið að þeim takist það?

