Náðu í appið
14
Öllum leyfð

Toy Story 3 2010

(Leikfangasaga 3)

Frumsýnd: 16. júní 2010

No toy gets left behind.

103 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 98% Critics
The Movies database einkunn 92
/100

Addi er orðinn 18 ára og vaxinn upp úr leikföngunum sínum. Hann ætlar sér að setja þau öll upp á háaloft, en móðir Adda gefur þau óvart til leikskóla. Börnin á leikskólanum leika sér því miður ekki fallega með dótið sitt svo Viddi og Bósi, ásamt öllum hinum leikföngunum, leggja á flótta.

Aðalleikarar

Pixar toppa fyrrverandi Leikfangasögur
Leikfangasaga hefur fest sér rætur í hjörtu margra sem ólust upp á níunda áratugnum en hefur aldrei haft nein ákafleg áhrif á mig þó að ég kann vel að meta seríuna og skemmti mér konunglega yfir ævintýrum leikfanganna. Sú þriðja hafði samt sem áður meiri áhrif á mig og fannst mér eins og ég væri að kveðja gamla vini þegar myndinni var að ljúka.

Pixar hafa aldrei gert slæma kvikmynd og læra alltaf af þeim örfáu mistökum sem þau hafa gert, þetta er framleiðslu fyrirtæki sem er án efa með stórt hjarta og mikið af hæfileikaríku fólki. Hér er á ferð vel keyrð ævintýramynd sem skilur mikið eftir sig og fiskar tilfinningaleg viðbrögð aðdáenda seríunnar. Pixar er nú bara einfaldlega gallalaus gæðastimpill.

Húmorinn er ruglaðri en áður en einnig fyndnari og voru Pixar mjög skapandi með hvernig þau ættu að nota persónurnar til gamans og alvarleika. Spænski bósi er til dæmis ekki bara bráðfyndinn og sniðugt bergmál af persónugöllum hans í fyrstu tveim heldur virkar hann líka sem áhugaverð persóna og þróar meðal annars samband milli sín og óvæntrar persónu fyrir hann. Þegar brandararnir eru ekki bandbrjálaðir er grínið annaðhvort lúmskt og vel hulið eða eitthvað sem sést í bakrunninum sem ætti að veita Toy Story 3 mikið líf í spilaranum þegar hún kemur út á DVD þ.e.a.s. ef að pásutakkinn þinn ræður við alla snilldina sem leynist í þessum lokakafla.

Aukapersónurnar sem kynntar eru til leiks eru mjög litríkar og stórskemmtilegar og illmennið í þessari á sér mjög tragíska fortíð en fellur samt ekki í ákveðinn klassa af illmennum þar sem hann virkar ferskur út alla myndina og er ávallt einu skrefi á undan áhorfandanum. Leikararnir standa sig prýðilega eins og vanalega(hef bara séð ensku talsetninguna) og væri ekki hægt að búast við neinu verra frá Pixar.

Ef ég hef eitthvað á móti þessari mynd þá finnst mér hún eiginlega aðeins of væmin og allar aukapersónurnar taka frá svigrúm fyrir persónusköpun aðalpersónanna. Ég væri samt sem áður ljúga ef ég neitaði að hafa ekki fengið kökk í hálsinn við lok myndarinnar. Sjáðu þessa og ef þú hefur ekki séð fyrri tvær þá eru þær líka ómissandi.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Fullkomin Uppgjör
Toy Story 3 er nýjasta pixar myndin og fullkomin endir á Toy Story trílógíunni. Þegar ég heyrði fyrst um þessa mynd hélt ég að þetta væri bara peningaplott eins og framhaldsmyndir eru svo oft, en ég hafði virkilega rangt fyrir mér. Toy Story 3 er frábær mynd fyrir unga sem aldna og held ég að allir muni hafa gaman af henni. Sjarminn við hana er að hún virkar svo vel á kynslóðina sem ólst upp við Toy Story myndirnar og er núna að verða fullorðið fólk.

Myndin fjallar um leikföngin hans Andy þegar hann er orðinn 18 ára og löngu hættur að leika sér með þau. Hann er að fara í háskóla og þarf að henda leikföngunum eða fara með þau upp á háaloft. Hann ætlar með þau upp á háaloft en þau lenda óvart í að fara á leikskóla. Þar lítur allt vel út til að byrja með og halda leikföngin að þau fái loksins þá athygli og væntumþykju sem þau eru ekki búin að fá frá Andy í langan tíma. En því miður gerist það ekki og þurfa þau að reyna að sleppa frá leikskólanum og komast aftur heim til Andy.

Myndin er eins og margir gagnrýnendur hafa sagt sú besta í Toy Story trílógíunni. Hún er fyndin og virkar húmorinn bæði fyrir unga og eldri áhorfendur þar má nefna sem dæmi Ken dúkkuna sem að fékk mann margoft til að hlæja. Tónlistin er skemmtileg og glöddust allir áhorfendurnir við að heyra ,,ég er sko vinur þinn" lagið aftur. Það er líka virkilega gaman að sjá myndina í þrívídd.

Toy Story er frábær teiknimynd og með því besta sem Pixar hefur framleitt, ég hvet alla til að sjá þessa mynd sama á hvaða aldri þeir eru. Þetta er fullkomin uppgjör við æskuna fyrir kynslóðina sem ólst upp við Toy Story!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
MJÖG sterk tía!
Ég horfði á fyrstu tvær myndirnar oft þegar ég var minni og fílaði þær í tætlur. Kannski seinni aðeins meira, er ekki viss. Ég var mjög spenntur að sjá nýjustu myndina og vonaði að hún myndi ekki lenda í sama hópi og nýjustu myndirnar í bíói. Vonaði að hún væri a.m.k. sæmileg. Ég fór á hana og hún var GEÐVEIK! Hún er fyndnari en fyrstu tvær myndirnar og betri í alla staði en fyrstu myndirnar. Það var smá væmni í endann en ekki neikvæð væmni heldur jákvæð. Þannig væmni að maður fann til með þeim, hugsaði ekki: Guð, þetta er væmið. Seinustu 20 min eru náttúrulega bara pure snilld. Öll myndin líka. Mér fannst langfyndnast þegar Mr. PotatoHead ,,breytti um form''. Ég var í hláturskasti í langan tíma!

Ég hef aldrei fílað teiknimyndir mjög mikið. Ég fíla t.d. ekki Wall-E, Nemo, Cars, Ratatouille, Shrek og finnst þær eiginlega bara barnalegar en Toy Story-mydnirnar eru of mikil meistaraverk! Það er eitthvað við þær! Ég gæti horft endalaust á þær, allavega einu sinni á mánuði :)

Talsetningin er góð og Tom Hanks brillerar ásamt Tim Allen. Svo finnst mér röddin á risaeðlunni alltaf svo fyndin, líka röddin á Miss Potato Head.

Ég mæli með þessari mynd, þú þarft ekki að eiga börn til þess að sjá hana, það eru bara hálfvitar sem vilja ekki sjá þessa mynd vegna þess að þeim finnst hún barnaleg. Sure, hún er tölvuteiknuð en hún hefur svo mikið humór, hjarta og skemmtanagildi að hún er ekki barnamynd fyrir mér, bara grínmynd eða eitthvað.

10/10
Frábær mynd, þrívíddin sleppur og ekki 100% rip-off eins og Clash OF THE Titans.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Meistaraverk. Sú besta í seríunni.
Það verður að segjast að bíóárið í ár sé vonbrigði, þar sem myndir eins og Iron Man 2, Prince of Persia, Clash of the titans, Wolfman og Alice in Wonderland áttu að verða stærstu og skemmtilegustu myndirnar en enduðu á því að verða að þvílíkum hryllingi að horfa á. Þó eru sumar búnar að ná að heilla mig upp(Kick-Ass, Shutter Island, Imaginarium of Doctor Parnassus).

Þannig, eftir mörg bíóvonbrigði, er það eins og að anda að sér fersku lofti þegar maður fær að líta á mynd eins og Toy Story 3. Þessi mynd er búin að vera í bígerð í nokkuð langan tíma(11 ár). Þó svo að biðin var lengi, var það vel þess virði.

Sagan: Andy er á leið í háskóla og fer móðir hans með öll gömlu dótin hans, sem hann ólst upp með, í barnapössun þar sem Woody, Buzz og allt gengið kynnist alls konar nýjum karakterum, og kringumstæðum sem á eftir að breytast í þeirra verstu martröð. Vitandi það að Andy er að leita að þeim, ákveður hópurinn að flýja frá barnapössun og komast til síns eiganda áður en það verður of seint.

Það er alveg augljóst að framleiðendurnir og leikstjórinn ætluðu sér að hafa þessa 3 mynd stærri í skala heldur en fyrstu 2 og það sést vel, sérstaklega í snilldar byrjunaratriðinu.

Útlit myndarinnar er alltaf jafn dásamlegt og áður, og fannst mér 3D-ið skila sér vel í þessari mynd(annað en AIW gerði).

Húmorinn er líka til staðar, og held ég hafi aldrei hlegið jafn mikið eins og yfir 3 myndinni.

Mikið er af nýjum karakterum sem fá mis mikið að njóta sín, en eru kostulegir allir saman. Þar ber helst að nefna bangsann Lots-O sem er eins sætur og hann getur orðið(eða hvað?), og svo hinn magnaða og mjög hýra(að mínu mati) Ken, sem er snilldarlega túlkaður af Michael Keaton. Svo verð ég að nefna þunglynda trúðinn, sem er kostulegur(hló hrikalega þegar maður sá hann).

Talsetningin er traust að vanda, þar sem Tom Hanks stendur sig alltaf jafn vel sem Woody, Wallace Shawn ávallt jafn fyndinn sem Rex og John Ratzenberger kostulegur sem Hamm.

En þeir 2 sem eru, að mínu mati, steluþjófar myndarinnar eru þeir Buzz og Mr. Potato Head. Þó svo þeir voru frábærir í fyrstu 2 myndunum, er það í þessari sem þeir verða alveg meiriháttar. Þeir eiga allavega uppáhalds atriðin mín úr þessari mynd, þar sem Buzz fær vægast sagt nýjan hæfileika sem ég átti aldrei von á að hann gæti(sem er sprenghlægilegt), og við fáum nýja útgáfu af Potato Head(sem er bara það fyndnasta sem ég hef séð).

En þessi mynd er ekki bara fyndin og magnað ævintýri, ó nei. Þessi mynd er einnig mjög átakanleg og þar á ég sérstaklega við endirinn sem er eiginlega of fullkominn. Ég allavega brotnaði niður yfir honum, og hann var virkilega sorglegur en mjög sterkur líka.

Lokaniðurstaða: Ef þessi mynd er endirinn á trilógíu, þá hafa þeir náð að enda þennan þríleik með stæl. Bravó, Pixar. Bravó. 10 af 10. Það besta sem maður hefur séð í bíói í ár, og ein besta 3 mynd sem hefur verið gerð.

P.s. Ef önnur mynd verður gerð, þá bíð ég spenntur eftir henni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Afbragðs þristur!
Það feilar nánast aldrei að í hvert skipti sem gengið er út af mynd frá Pixar-mönnum þá er maður fastur með aulalegt bros límt við varirnar, og það hverfur ekki fyrr en löngu eftir áhorf. Maður þarf aldrei að hafa áhyggjur af því fyrirfram hvort Pixar-mynd – hvort sem hún er stuttmynd eða í fullri lengd - muni kæta mann eða ekki, heldur meira er það spurning um hversu mikið. Það er líka búin að vera borðliggjandi staðreynd í meira en 20 ár að þetta fólk er það langbesta í því sem það gerir og ég virði liðið í tætlur fyrir það að hafa tekið sinn tíma með að gera nýja Toy Story-mynd og passa upp á að sagan sé rétt, í stað þess að henda einni strax á færibandið um leið og sú síðasta halaði inn hrúgu af seðlum. Bara ef Shrek og Ice Age-myndirnar hefðu gert eitthvað svipað...

Þó svo að mínar uppáhalds Pixar-myndir séu The Incredibles og Wall-E þá held ég mikið upp á fyrstu Toy Story-myndina, og önnur myndin er m.a.s. örlítið betri. Ég hafði ekki minnstu áhyggjur af því hvort að þriðja myndin yrði góð eða ekki, en það sem ég átti ekki von á var það að hún reyndist vera enn betri en ég þorði að ímynda mér. Ég bjóst við skemmtilegri mynd með húmor – sem í besta falli yrði aðeins síðri en hinar - en það sem ég fékk í staðinn var stórskemmtileg og hjartnæm mynd með FRÁBÆRUM húmor. Gæðamunur þessara þriggja mynda er virkilega smár en ef ég þyrfti að velja þá myndi ég segja að þessi þriðja sé sú besta af þeim (já, án gríns!), en það munar aðeins hársbreidd á milli hennar og nr. 2 (söngatriðið í lokin á þeirri mynd dró hana örlítið niður. Það náði aldrei til mín). Þetta setur hana í algjöran minnihluta, enda gæti ég talið upp með annarri hendi þau skipti sem þriðju myndirnar í seríum hafa trompað forvera sína.

Vestræni afþreyingarheimurinn væri svo margfalt betri ef við myndum fá fleiri fjölskyldumyndir af þessu kaliberi, og það er sóðalegt hvað þær eru sjaldséðar. Hvað skemmtanagildi varðar er Toy Story 3 gjörsamlega gallalaus og aukastig fær hún fyrir að vera troðin minnisstæðum persónum, bæði nýjum og gömlum góðum. Ég mana ykkur samt til að segja að laumuhomminn Ken sé ekki besta persónan af þessum nýju. Mér fannst hann frábær! Annars fangar þessi saga athygli manns svo sterkt því við höfum þekkt þessar persónur í svo skuggalega langan tíma, og þetta eru allt frábærir karakterar í þokkabót. Ég, eins og örugglega margir úr minni kynslóð og þeir sem eru eldri, hef haft sterka umhyggju fyrir Woody, Buzz og félögum (Hamm er þó bestur. Ekki neita því!) síðan 1995, og þeir sem eru yngri munu ábyggilega finna fyrir stjórnlausri nostalgíu að sjá þá hér enn einu sinni. Ég get líka sagt ykkur það að ef þið eruð á meðal þeirra sem þekkja hinar tvær Toy Story-myndirnar vel og hafið séð þær óheilbrigt oft, þá get ég lofað ykkur að seinustu mínúturnar - áður en kreditlistinn rúllar - munu hitta beint í hjartastað á ykkur. Ég yrði allavega nett sjokkeraður ef fólk byrjar ekki að finna fyrir smá gleðitárum. Aðrir, aftur á móti, munu líklegast bara kalla þetta pínu væmið. Ekki samt segja mér að atriðið með brennsluofninum hafi ekki gefið þér tryllta gæsahúð!

Ef það er einhvern galla að finna í þessum myndum (og ath. þarna tala ég um "þríleikinn" í heild sinni) þá er það sá að þær eiga til með að endurtaka sig pínulítið. Það koma einstaka sinnum fyrir atvik sem annaðhvort spegla eða eru keimlíkar öðrum senum úr hinum myndunum og þegar heildin er skoðuð þá fara þessi einkenni að skína svolítið í gegn. Hins vegar eru nýjungar einnig til staðar, og sem betur fer mikið af þeim. Ég dýrkaði sérstaklega þá tilbreytingu að sýna Andy leika sér með leikföngin í gegnum epíska fantasíusenu í stað þess að sýna hann hrista dótið til í herberginu sínu. Svona svipað og önnur myndin gerði þegar tölvuleikurinn var sýndur, nema bara fyndnara.

Sem fyrr þá er raddsetningin virkilega lífleg, bæði hjá aðal- og aukapersónum. Útlitið er einnig til glæsilegt og Randy Newman tónlistin kemur sér að sjálfsögðu vel fyrir. Það er líka eitthvað svo huggulegt við það að heyra gömlu stefin aftur, svo ekki sé minnst á það hversu skondið það er að heyra You've Got a Friend in Me sungið á spænsku. Allt í góðu gríni auðvitað. Það kemur nefnilega á óvart hversu oft það tungumál fær mann til að hlæja hérna. Þið sjáið það sjálf.

Ég veit ekki hvernig betur á að orða það; Toy Story 3 er það besta sem ég hef séð í bíó á þessu ári hingað til. Hún er kannski ekki eins snjöll og bestu Pixar-myndirnar sem ég taldi áðan upp en það er bókað mál að hún sé ein af þeim alskemmtilegustu. Börn sem og fullorðnir eiga eftir að éta hana upp með bestu lyst, og eins og oft gerist er haugur af bröndurum sem hinir fullorðnu munu veltast úr hlátri yfir á meðan börnin hafa ekki hugmynd um hvað er svona fyndið. En ef þessi mynd kemur þér ekki í gott skap og snertir aðeins við þér þá skal ég dirfast til þess að kalla þig sálarlausan fýlupúka. Ég er m.a.s. enn skælbrosandi og get ekki beðið eftir að sjá myndina aftur.

9/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

04.02.2024

26 Pixar myndir frá verstu til bestu

Teiknimyndafyrirtækið Pixar hefur verið við lýði í næstum þrjá áratugi, en bráðum 28 ár eru frá því fyrsta myndin í fullri lengd kom frá fyrirtækinu. Vefritið Men´s Health raðaði tuttugu og sex myndum í röð eftir gæðum og má sjá listann hér fyrir neðan. [Ath. listinn var gerður áður en Elemental kom út í fyrrasumar.] Í formála segir Men´s Health að hægt sé að skipta árutugunum þr...

22.04.2020

Forsaga Hungurleikanna í vinnslu - Lawrence sest í leikstjórastólinn

Bandaríski leikstjórinn Francis Lawrence hefur verið ráðinn til að sitja við stjórnvölinn á kvikmyndinni The Ballad of Songbirds and Snakes. Þarna er um að ræða forsögu að Hungurleikaseríunni frá Suzanne Collins og verður myndin...

15.10.2019

Óendanlega mikið efni á Disney+

Ný streymisveita Disney afþreyingarrisans fer brátt í gang, og nú er orðið ljóst hvað boðið verður upp á í veitunni, en um er að ræða gríðarlegt magn af efni. Sagt er frá þessu á vef Gizmodo. Um helgina birti fyrirtækið stutta kitlu á Twitter, þar sem stiklað var á stóru, og sagt frá einhverjum af þeim kvikmyndum og sjónvarpsþáttum sem í boði verða. Þar er ekki eingöngu um nýtt og frumsamið efni eins og geimvestrann The Mandalorian að ræ...

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn